Stýrihópur vinnur að mótun heildstæðrar stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks
Stýrihópurinn er skipaður á grundvelli stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er kveðið á um að mótuð verði skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga á Íslandi. Skipunin byggir einnig á þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025. Stefnunni sem hópurinn mótar er ætlað að tryggja að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til að aðlagast og taka virkan þátt í samfélaginu, þar með talið á vinnumarkaði.
Við mótun stefnunnar verður meðal annars farið í saumana á því með hvaða hætti stuðla megi að inngildingu fólks í samfélagið, hvort sem um er að ræða innflytjendur eða flóttafólk hér á landi. Einnig er gert ráð fyrir að í stefnunni komi fram hvernig styðja megi við atvinnuþátttöku fólks.
Sérstök áhersla verður lögð á að skoða möguleika fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu og fjalla um félagsleg réttindi, menntun og atvinnuþátttöku með það að markmiði að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir manneskjum.