Flugþróunarsjóður styður við stóraukið millilandaflug á landsbyggðinni
Beint millilandaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum mun stóraukast á árinu þegar tvö stór erlend flugfélög hefja flug þangað. Svissneska flugfélagið Edelweiss Air mun fljúga beint til Akureyrar frá Zurich í sumar og hyggur á aukið flug þangað í framtíðinni og þýska flugfélagið Condor hefur tilkynnt áætlunarflug frá Frankfurt til Egilsstaða og Akureyrar frá maí til október 2023. Condor er fyrsta erlenda flugfélagið sem hefur tilkynnt um reglubundið flug á báða vellina.
Félögin bætast við þau sem fljúga þangað fyrir en hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur verið með leiguflug frá Hollandi til Akureyrar frá árinu 2019 og þá hóf flugfélagið Niceair beint áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife sumarið 2022 og hefur hug á að bæta fleiri áfangastöðum inn í áætlun sína á árinu.
Flugþróunarsjóður, sem settur var á laggirnar árið 2015, hefur undanfarin ár stuðlað að því að byggja upp nýjar flugleiðir til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Sjóðurinn hefur um 230 milljónir króna til ráðstöfunar á árinu 2023 og hefur þegar gert samning um að styrkja Condor, Niceair, Voigt Travel og verkefnið Nature Direct, sem gengur út á að talað sé einni röddu um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli. Þá hefur Alþingi samþykkt 150 m.kr. viðvarandi árlegt framlag í sjóðinn.
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir ávinning af starfi Flugþróunarsjóðs síðustu árin ótvíræðan: „Framboð flugleiða frá Akureyri beint til útlanda jókst mjög í fyrra með tilkomu Niceair og mun aukast til mikilla muna á árinu með nýjum flugfélögum og áfangastöðum. Með þessu stórbætast búsetuskilyrði og lífsgæði heimamanna og með auknu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða opnast fleiri gáttir inn í landið sem er forsenda framþróunar í ferðaþjónustu og frekari dreifingu ferðamanna um landið, allt árið um kring. Aukið millilandaflug frá fleiri stöðum en Keflavíkurflugvelli er hagsmunamál allra landsmanna”.