Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarfshópur um framhaldsfræðslu hefur störf

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ræðir við hópinn á fundinum í morgun. - mynd

Samstarfshópur um heildarendurskoðun framhaldsfræðslu hefur hafið störf. Formaður hans er Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og hittist hópurinn á fyrsta fundi í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ræddi við fundargesti og óskaði þeim velfarnaðar í störfum sínum. 

Framhaldsfræðsla er hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum fólks með stutta skólagöngu og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla. Innan framhaldsfræðslunnar er einnig leitast við að efla starfshæfni fólks og að bæta stöðu þeirra sem standa ekki jafnfætis öðrum á vinnumarkaði, svo sem vegna skorts á íslenskukunnáttu.

Hlutverk samstarfshópsins verður að greina stöðuna í málaflokknum með gerð grænbókar og leggja í kjölfarið fram tillögu í formi hvítbókar að heildstæðu kerfi í framhaldsfræðslu sem styrkir hana sem fimmtu stoð opinbera menntakerfisins hér á landi. Hópnum er enn fremur ætlað að veita ráðgjöf við gerð frumvarps til nýrra laga um framhaldsfræðslu.

Í vinnunni sem fram undan er verður sérstaklega rýnt í íslenskukennslu sem fram fer utan formlega skólakerfisins og er miðuð að fullorðnu fólki með annað móðurmál en íslensku, enda tungumálið lykillinn að inngildingu í samfélagið. Áhersla verður sömuleiðis lögð á að rýna framhaldsfræðsluna með tilliti til fatlaðs fólks.

Undirbúningur vinnunnar hefur staðið yfir frá því í júní sl. og í nóvember var boðað til vinnustofu með þjóðfundarformi um stefnumótun í framhaldsfræðslu. Þangað voru boðaðir fulltrúar allra þeirra sem koma að framhaldsfræðslu hér á landi. Má þar nefna félagasamtök, stjórnvöld, fræðsluaðila, atvinnulíf og nemendur. Niðurstöður vinnustofunnar verða nú rýndar af samstarfshópnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta