Forvarnir gegn hagræðingu úrslita í íþróttum
Íþróttir þurfa ávallt að fara fram af heilindum og mikilvægt að fyrirbyggja hvers kyns óheiðarleika eða hagræðingu úrslita. Íslensk stjórnvöld hafa staðfest sáttmála Evrópuráðsins gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum sem öðlast gildi 1. apríl nk. Með alþjóðleg viðmið að leiðarljósi hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, falið Lyfjaeftirliti Íslands að sinna fræðslu og forvarnarstarfi í baráttunni gegn hagræðingu úrslita í íþróttum. Þetta bætist við hlutverk Lyfjaeftirlitsins að sinna lyfjaeftirliti í íþróttum hérlendis.
Lyfjaeftirlit Íslands skipuleggur og framkvæmir lyfjaeftirlit í íþróttum hérlendis. Stofnunin birtir og kynnir bannlista WADA um efni sem óheimilt er að nota í íþróttum, stendur að fræðslu og forvörnum gegn lyfjamisnotkun og hvetur til rannsókna. Samningur um áframhaldandi störf Lyfjaeftirlitsins til næstu þriggja ára var undirritaður í mennta- og barnamálaráðuneytinu nýverið.
Við bætist nýtt hlutverk að sinna fræðslu- og forvarnarstarfi í samstarfi við hagaðila í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum (e. Macolin Convention). Stofnunin útbúi á því sviði fræðsluefni og -fyrirlestra fyrir íþróttahreyfinguna, standi fyrir fræðslufundum og þrói frekara samstarf við hagaðila.
,,Það var mikið framfaraskref þegar ráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stofnuðu Lyfjaeftirlit Íslands. Með virkri fræðslu og eftirliti fyrirbyggjum við lyfjamisnotkun í íþróttum og stuðlum að heiðarlegri íþróttaiðkun,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Nú útvíkkum við það hlutverk með forvörnum gegn hagræðingu úrslita. Þetta rúmast vel innan sömu stofnunar enda markmiðið hið sama, að stuðla að því að íþróttir fari fram af heilindum.“
Lyfjaeftirlitið tekur þátt í alþjóðastarfi og er falið að tryggja að eftirlit og reglur hérlendis séu í samræmi við alþjóðasamninga UNESCO og Evrópuráðsins um lyfjaeftirlit og lyfjareglur Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA).