Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp til umsagnar: Tilkynning heimilisofbeldis til lögreglu að beiðni sjúklings

Birt hafa verið til umsagnar drög að frumvarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Með breytingunni verður skýrt kveðið á um heimild heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings, óski sjúklingurinn eftir því. Markmiðið er að fyrirbyggja stigmögnun ofbeldis af þessu tagi, vernda þolendur þess og taka af tvímæli um heimild heilbrigðisstarfsfólks til að miðla upplýsingum í málum sem þessum. 

Í samræmi við stefnu stjórnvalda og markmið Istanbúlsamningsins

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að áfram skuli unnið markvisst að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi, réttarstaða brotaþola skuli bætt og forvarnir og fræðsla efld. Ísland er aðili að Istanbúlsamningnum um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Meðfylgjandi drög að frumvarpi eru liður í því að uppfylla betur sjónarmið Istanbúlsamningsins og markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Dregið úr líkum á ítrekuðu ofbeldi

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpsdrögunum er talið nauðsynlegt að auka upplýsingaflæði frá heilbrigðiskerfinu til lögreglu í heimilisofbeldismálum og auka samvinnu til að tryggja vernd og stuðning við þolendur og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi. Samhliða þurfi að tryggja að reglur um þagnarskyldu hindri ekki samvinnu heilbrigðiskerfis og lögreglu þegar kemur að þjónustu við þolendur heimilisofbeldis, þar sem markmiðið er m.a. að rjúfa hring ofbeldis í þágu þolenda. Í samráði við sjúkling verður heilbrigðisstarfsmanni heimilt að miðla til lögreglu almennum persónuupplýsingum um hann, upplýsingum um áverka ásamt öðrum upplýsingum er varða ofbeldið og aðstæður þolanda og eru taldar nauðsynlegar svo lögregla geti gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning við sjúkling.

Umsagnarfrestur um frumvarpsdrögin er til 10. febrúar næstkomandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta