Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Reglugerð um atvinnusjúkdóma og rétt til bóta

Í byggingarvinnu - myndYadid Levy / Norden.org

Birt hafa verið til umsagnar drög að reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem fjallar um bótaskylda atvinnusjúkdóma. Markmiðið er að tryggja þeim bætur sem eru slysatryggðir og greinast með atvinnusjúkdóm, óháð tekjum viðkomandi. Með reglugerðinni er fylgt eftir breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 sem samþykktar voru á Alþingi í júní 2021.

Með lagabreytingunni 2021 var skýrt kveðið á um að tryggingavernd laganna nái einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Jafnframt var í fyrsta sinn hér á landi skilgreint í lögum hvað felst í atvinnusjúkdómi, en það er „sjúkdómur sem orsakast af vinnu og aðstæðum í starfsumhverfi“. Í framhaldi af lagabreytingunni skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem falið var að semja drög að reglugerð með yfirliti yfir bótaskylda sjúkdóma.

Meðfylgjandi reglugerðardrög byggja á leiðbeiningum Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma og skiptast í þrjá kafla. Í fyrsta kafla er kveðið á um gildissvið og markmið reglugerðarinnar. Annar kaflinn fjallar um hlutverk Sjúkratrygginga Íslands um framkvæmd reglugerðarinnar og hvernig staðið skuli að umsóknum um bætur og í þriðja kafla er fjallað um skilyrði þess að sjúkdómur teljist atvinnusjúkdómur og hvernig það skuli metið.

Í samræmi við tillögu fyrrnefnds starfshóps var ákveðið að taka upp lista Evrópusambandsins yfir atvinnusjúkdóma og fylgir hann reglugerðardrögunum sem viðauki. Umsagnarfrestur er til 22. febrúar næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta