Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra framlengir heimild um vernd fyrir Úkraínubúa

Dómsmálaráðherra hefur tekið ákvörðun um að framlengja gildistíma 44. gr. útlendingalaga um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Upphaflega var ákvörðun um virkjun 44. gr. tekin þann 4. mars 2022 og gilti til eins ár. Ákvörðun um framlengingu er tekin að undangengnu samráði, innan lands sem utan, þ. á m. við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Staðan í Úkraínu hefur ekki batnað frá því sem var fyrir tæpu ári síðan, þegar upphaflega var tekin ákvörðun um að virkja 44. gr. Átök hafa nú geisað í landinu um 11 mánaða skeið með tilheyrandi eyðileggingu og skemmdum á borgum, bæjum og innviðum landsins. Þá er óvissan um framhaldið gríðarleg.

Árið 2022 sóttu 2.345 einstaklingar um tímabundna vernd á grundvelli 44. gr. útlendingalaga hér á landi. Þar af hefur Útlendingastofnun þegar veitt tæplega 2.309 umsækjendum slíka vernd, einhverjar umsóknir eru enn í vinnslu og lítill hluti umsókna hefur hlotið aðrar lyktir, svo sem vegna þess að þær hafa verið dregnar til baka af hálfu umsækjanda. Ef horft er til heildarfjölda umsókna um tímabundna vernd árið 2022 er meðaltal umsókna á mánuði 235 frá mars til desemberloka. Ekki verður séð að fjöldi umsækjenda um tímabundna vernd hafi dregist teljanlega saman undanfarna mánuði frá því sem var mánuðina þar á undan.

 

Samráð við Flóttamannastofnun SÞ

Líkt og að framan greinir ber dómsmálaráðherra, áður en ákvörðun er tekin um framlengingu á gildistíma 44. gr., að viðhafa samráð, innanlands sem utan, þar á meðal við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld hér á landi eru í virku samtali við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fylgjast með upplýsingum sem stofnunin gefur út, fréttatilkynningum, skýrslum o.fl. Þegar ákvörðun um virkjun 44. gr. var tekin í fyrra áætlaði Flóttamannastofnunin að allt að 4 milljónir manna myndu flýja átökin á fyrstu dögum og vikum þeirra. Í september 2022 birti stofnunin upplýsingar þess efnis að tæplega 18 milljón manns í Úkraínu væru í þörf fyrir mannúðaraðstoð, þ. á m. rúmlega 6 milljón manns sem væru vegalaus vegna átakanna. Í nóvember 2022 höfðu yfir 7,8 milljón flóttamanna frá Úkraínu verið skráðir í Evrópu, þar af 4,7 milljónir sem hlotið höfðu tímabundna vernd.

Síðastliðið ár hafa stjórnvöld á Íslandi, þ. á m. sérfræðingar í dómsmálaráðuneytinu, átt í miklu og góðu samstarfi við önnur Evrópuríki um beitingu tímabundinnar verndar í álfunni vegna fjöldaflótta frá Úkraínu. Tilskipun 2001/55/EC verður að öllu óbreyttu framlengd um ár og gildir þá hjá öllum aðildarríkjum ESB til 4. mars 2024. Þá liggur fyrir að hin þrjú samstarfslönd Schengen, Noregur, Sviss og Liechtenstein, hafa þegar tekið ákvörðun um að framlengja gildistíma sinna laga og/eða reglna um tímabundna vernd.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta