Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Forseti Kósovó í heimsókn á Íslandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Vjosa Osmani forseti Kósovó - myndForsetaskrifstofa Kósovó

Formennska Íslands í Evrópuráðinu, tvíhliðasamskipti og staða friðarviðræðna milli Serbíu og Kósovó voru efst á baugi á fundum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með Vjosa Osmani, forseta Kósovó, sem fram fóru hér á landi í gær.

Kósovó lýsti yfir sjálfstæði 17. febrúar 2008 og var Ísland meðal fyrstu ríkja til að viðurkenna sjálfstæði landsins. Samskipti Íslands og Kósovó hafa aukist síðastliðin ár þar sem íslensk stjórnvöld hafa, að beiðni Atlantshafsbandalagsins, tekið að sér að aðstoða aðgerðastjórn bandalagsins í Kósovó (KFOR) við stjórn neðra loftrýmis í landinu. Það er ekki í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld taka að sér verkefni að þessum toga en í byrjun þessarar aldar tók íslenska friðargæslan það að sér að stjórna alþjóðaflugvellinum í Pristina. Þar að auki hafa nemendur frá Kósovó sótt nám í jafnréttisskóla GRÓ hér á landi frá árinu 2019.

„Ísland var meðal fyrstu ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Kósovó árið 2008 og á fundinum ræddum við þær áskoranir sem Kósovó hefur staðið frammi fyrir í sinni sjálfstæðu tilveru undanfarin fimmtán ár. Meðal annars ræddum við samskipti Kósovó og Serbíu og umsókn Kósovó að Evrópuráðinu,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Auk þess að ræða tvíhliða samskipti ríkjanna var formennska Íslands í Evrópuráðinu einnig til umræðu og aðildarumsókn Kósovó að ráðinu. Kósovó sótti formlega um aðild í maí 2022 en er þegar aðili að Feneyjarnefndinni og Þróunarbanka Evrópuráðsins. Stjórnvöld þar í landi vilja nú öðlast fulla aðild að Evrópuráðinu til að tryggja meðal annars frekari uppbyggingu mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. Umsóknin er nú til umfjöllunar í framkvæmdastjórn ráðherranefndar Evrópuráðsins.

„Ég tel það jákvætt að Kósovó hafi sótt um aðild að Evrópuráðinu enda sýnir það vilja stjórnvalda þar í landi að standa fyrir þeim grunngildum sem ráðið snýst um: lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu. Innrásin í Úkraínu, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar skapa áskoranir fyrir þessi grunngildi og því hefur aldrei verið mikilvægara að Evrópuþjóðir standi saman í að verja þessi gildi,“ segir Þórdís Kolbrún.

Málefni Vestur-Balkanskaga og staða friðarviðræðna milli Serbíu og Kósovó voru einnig til umræðu. Þá hvöttu forsætisráðherra og utanríkisráðherra forseta Kósovó til að leita allra leiða til að ná samkomulagi við nágrannaríki sitt sem allra fyrst.

Auk þess átti Osmani fund með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og heimsótti Alþingi.

  • Frá fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Vjosa Osmani, forseta Kósovó. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta