Breyting á reglugerð um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla
Dómsmálaráðuneytið hefur að undanförnu haft til endurskoðunar reglugerð nr. 1420/2020 um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samkvæmt lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ber tilkynningarskyldum aðilum að meta hvort viðskiptamenn eða raunverulegir eigendur séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og grípa til tiltekinna ráðstafana þegar um er að ræða viðskipti við slíka einstaklinga. Í því skyni setti dómsmálaráðherra áður nefnda reglugerð nr. 1420/2020 og er henni ætlað að veita tilkynningarskyldum aðilum leiðbeiningar um það hvaða starfsheiti teljist til háttsettra opinberra starfa í skilningi laga nr. 140/2018, setja reglur um útgáfu lista yfir starfsheiti og setja nánari reglur um ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila.
Nokkrar breytingar
Hinn 30. janúar 2023 var birt í Stjórnartíðindum reglugerð nr. 88/2023 um breytingu á reglugerð nr. 1420/2020 um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Breytingarnar eru fjórþættar. Í fyrsta lagi á 6. gr. þar sem starsheiti ríkisendurskoðanda hefur verið bætt við upptalningu í kjölfar lagabreytinga, í öðru lagi á 8. gr. um skilgreiningu á ríkisfyrirtækjum og viðmið þar um, í þriðja lagi á 10. gr. um útgáfu og uppfærslu lista yfir starfsheiti og í fjórða lagi á 11. gr. um hvenær upplýsingar skuli sendar til fjármálaeftirlitsins, sem fer með útgáfu listans.
Upplýsingar berist fyrir 15. febrúar ár hvert
Vakin er athygli á að með síðastnefndri breytingu skulu stjórnmálaflokkar sem starfa hér á landi og eiga kjörna fulltrúa á Alþingi, fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið senda upplýsingar fyrir 15. febrúar ár hvert og áréttað að senda skuli upplýsingar um breytingar reglulega utan þess tímamarks ef tilefni er til.