Rótin fær hálfa milljón króna í styrk vegna alþjóðlegrar ráðstefnu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðráðherra, hefur veitt Rótinni, félagi um velferð og vellíðan kvenna, styrk að upphæð tæplega hálfri milljón króna vegna alþjóðlegrar ráðstefnu sem félagið stendur fyrir.
Ráðstefnan verður haldin 1.-2. nóvember næstkomandi og fjallar um stefnumótun í áfengis- og vímuefnamálum með sérstaka áherslu á hinsegin fólk, kyn/konur, skaðaminnkun réttarvörslukerfi, heimilislausar konur og eldri konur. Markmið ráðstefnunnar er að tengja fagfólk og stefnumótendur við innlenda og erlenda sérfræðinga í fremstu röð.
Á ráðstefnunni verður lögð áhersla á þær breytingar sem eru að verða, eða eru taldar þurfa að eiga sér stað, í stefnumótun og þjónustu við fólk í skaðlegri vímuefnanotkun með tilliti til mannréttinda.