Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra samþykkir tillögur starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði starfshóp um smitvarnir í sjókvíaeldi í júní sl. Hópurinn hefur nú skilað tillögum sem ráðherra hefur samþykkt. Hlutverk hópsins var meta núverandi regluverk, þ.m.t þau viðbrögð sem viðhöfð eru þegar smitsjúkdómar koma upp, ásamt því að bera saman smitvarnir og löggjöf í öðrum löndum. Var helst horft til reynslu Færeyinga en sjókvíaeldi þar er svipað að umfangi og áætlað sjókvíaeldi á Íslandi. Færeysk stjórnvöld hafa unnið með atvinnugreininni að nýrri nálgun og hertari löggjöf til að að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma.

Hópurinn mat einnig hvort þörf væri á breyttri nálgun í sjókvíaeldi á Íslandi og snúa samþykktar tillögur hópsins að breytingum á regluverki, viðbragðsáætlunum, eftirliti, vöktun og skipulagningu á starfsemi sjókvíaeldis.

Það er álit starfshópsins að þessar tillögur færi smitvarnir í sjókvíaeldi í betra og skýrara horf en verið hefur fram til þessa. Starfshópurinn áréttar að smitvarnir eru viðvarandi verkefni þar sem stjórnvöld og atvinnugreinin verða í sameiningu að halda vöku sinni yfir. Stöðugt þarf að viðhalda og bæta reglur og skipulagningu smitvarna eftir því sem aðstæður breytast hverju sinni. Rík áhersla er lögð á að innleiðing tillagna starfshópsins gangi eins hratt og kostur er.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta