Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2023

Framkvæmdaáætlun græna sáttmálans

Að þessu sinni er fjallað um:

  • framkvæmdaáætlun græna sáttmálans
  • fund leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB)
  • reglugerð um erlenda styrki sem geta haft óæskileg áhrif á innri markað ESB
  • Evrópska færniárið 2023
  • óformlega fundi samkeppnis- og viðskiptaráðherra ESB og ráðherra vísindarannsókna
  • verðþak á rússneskar olíuvörur
  • tilmæli ráðherraráðs ESB til aðildarríkjanna um lágmarksframfærslu
  • áherslumál ESB gagnvart Evrópuráðinu 2023-2024
  • frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið
  • skýrslu um formennskutíð Íslands í fastanefnd EFTA á seinni hluta árs 2022

Framkvæmdaáætlun græna sáttmálans

Þann 1. febrúar sl. var framkvæmdaáætlun framkvæmdastjórnar ESB (e. Green Deal Industrial Plan for the Net-Zero Age) birt opinberlega í formi orðsendingar til Evrópuþingsins, leiðtogaráðs ESB, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar.  

Áætlunin felur í sér bein viðbrögð ESB við nýrri lagasetningu í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA). svonefndri IRA-löggjöf (e. Inflation Reduction Act ), en um efni þeirrar löggjafar og boðuð viðbrögð ESB var fjallað í Vaktinni 27. janúar sl.

Markmið áætlunarinnar er að auka samkeppnishæfni evrópsks tækniiðnaðar á sviði grænnar orku og orkuskipta í samræmi við metnaðarfull markmið græna sáttmálans um kolefnishlutleysi.

Áætlunin er sett fram sem viðbót við fyrri áætlanir og stefnur ESB á þessum sviðum, sbr. einkum Græna sáttmálann (e. European Green Deal) og „REPowerEU“. Eins og vikið var að í Vaktinni 27. janúar sl., þá byggir áætlunin á fjórum meginstoðum:

  1. Einföldun regluverks. Fyrsta stoðin snýr að því að auka fyrirsjáanleika, hraða leyfisveitingum og einfalda regluverk með það að markmiði að hvetja til fjárfestinga í allri virðiskeðju græns iðnaðar. Í þessu skyni hyggst framkvæmdastjórnin leggja fram tillögu að nýrri reglugerð „Net-Zero Industry Act“ og er áætlað að tillaga að reglugerðinni verði lögð fyrir Evrópuþingið og ráðið um miðjan mars nk. Tillagan mun spila saman við áður boðaða löggjöf um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials), en þeirrar tillögu er að vænta um miðjan mars, og endurskoðun reglna um evrópskan raforkumarkað en áform um þá endurskoðun voru kynnt í samráðsgátt ESB nýverið, sbr. sérstaka umfjöllun í Vaktinni 27. janúar sl.

  2. Greiðari aðgangur að fjármögnun. Önnur stoðin snýr að því að byggja upp greiðari aðgang að fjármögnun og auka fjárfestingu í hreinum/grænum tækniiðnaði. Í því skyni hefur framkvæmdastjórnin leitað samráðs meðal aðildarríkjanna um að slakað verði tímabundið á ríkisaðstoðarreglum m.a. til að unnt sé að mæta þeim ívilnunum sem önnur ríki og ríkjabandalög bjóða, t.a.m. BNA og Kína. Samhliða leggur framkvæmdastjórnin til að settur verði á laggirnar nýr sjóður undir heitinu „EU Sovereignty Fund“ til að jafna aðstöðumun aðildarríkja ESB þar sem svigrúm ríkjanna til ríkisaðstoðar er mismunandi.

  3. Færnisátaki. Þriðja stoðin snýr að því að auka hæfni og færni fólks á vinnumarkaði á sviðum tengdum grænum iðnaði og orkuskiptum enda sé aukin færni er forsenda árangurs. Hyggst framkvæmdastjórnin leggja til að stofnað verði til sérstakrar menntaakademíu á sviði framkvæmdaáætlunar græna sáttmálans (e. Net Zero Industry Academies) sem fái það hlutverk að móta endurmenntunaráætlanir á helstu þekkingarsviðum græns iðnaðar auk þess sem leitað verði leiða til að meta raunfærni einstaklinga óháð menntun og prófgráðum. Færnisátakið spilar saman við tillögu framkvæmdastjórnarinnar um að árið 2023 verði tileinkað færni, sbr. sérstaka umfjöllun hér að neðan um Evrópska færnisárið 2023.

  4. Frjálsum og sanngjörnum viðskiptum og öruggum aðfangakeðjum. Fjórða stoðin snýr að frjálsum og sanngjörnum alþjóðaviðskiptum og uppbyggingu öruggra aðfangakeðja sem styðja við græn umskipti. Í þessu skyni hyggst framkvæmdastjórnin vinna áfram að því að efla samstarf við helstu samstarfsríki, með gerð fríverslunarsamninga og annars konar fjölþættu samstarfi sem stutt getur við græn umskipti og með því að styðja við starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. World Trade Organization). Þá hyggst framkvæmdastjórnin kanna möguleika á því að efna til bandalags meðal samstarfsríkja á sviði hrávöruviðskipta (e. Critical Raw Materials Club) með það að markmiði að tryggja alþjóðlegt framboð mikilvægra hráefna er styðji við fjölbreytta iðnaðarframleiðslu á samkeppnisgrundvelli (e. Clean Tech/Net-Zero Industrial Partnerships). Samhliða framangreindu mun framkvæmdastjórnin nýta þau úrræði sem hún hefur til að koma í veg fyrir að erlendir styrkir raski samkeppni á innri markaðinum, sbr. m.a. reglugerð um erlenda styrki (e. Foreign Subsidies Regulation) sem tók gildi 12. janúar sl. og kemur til framkvæmda síðar á þessu ári en sérstaklega er fjallað um þá reglugerð hér neðar í Vaktinni.

Eins og rakið var í Vaktinni 27. janúar sl. þá hefur IRA-löggjöf BNA vakið upp umtalsverðar áhyggjur innan aðildarríkja ESB og í stofnunum sambandsins. Eftir sem áður þá hafa skoðanir verið skiptar um hversu langt eigi að ganga í viðbrögðum. Hafa stóru ríkin tvö, Þýskaland og Frakkland, þrýst mjög á um að slakað verði á ríkisaðstoðarreglum til að bregðast við hinni alþjóðlegu samkeppni en vafamál er með undirtektir frá öðrum aðildarríkjum. Beinast áhyggjur minni ríkjanna, sem hafa almennt minna efnahagsleg svigrúm til ríkisaðstoðar, að því að auknar heimildir til ríkisaðstoðar geti raskað samkeppnisskilyrðum á innri markaði ESB. Einnig eru skiptar skoðanir um hvort og þá hvernig eigi að auka sameiginlegar fjárveitingar í samkeppnissjóði ESB sem veita fyrirtækjum í ríkjum með minna fjárhagslegt svigrúm styrki til græns iðnaðar samanber framangreinda tillögu um stofnun fullveldissjóðs ESB (e. EU Sovereignty Fund).

Umræða um þessi málefni virðist þó, ef eitthvað er, vera ná meira jafnvægi, enda er IRA-löggjöfin og sú hugmyndafræði sem hún byggir á um margt áþekk þeim leiðum og hugmyndafræði sem byggt er á í græna sáttmála ESB. Aðferðirnar eru þó ólíkar og skýrist það í einhverjum tilvikum af ólíkum stjórnkerfum BNA og ESB og þá fyrst og fremst þeirri staðreynd að stofnanir ESB hafa ekki miðlægt skattlagningarvald líkt og alríkisstjórnin í BNA en þar er ríkisaðstoðinni fyrst og fremst miðlað í gegnum skattkerfið. Ríkisaðstoð í formi skattívilnana innan ESB verður hins vegar ekki komið við nema með sérstökum ákvörðunum aðildarríkjanna sjálfra í hverju tilviki og þær ákvarðanir þurfa að vera innan þess ramma sem ríkisaðstoðarreglur ESB leyfa á hverjum tíma og hefur framkvæmdastjórn ESB eftirlit með því að svo sé. Megin leiðin sem ESB hefur til beinna stuðningsaðgerða er því í gegnum sjóði og samstarfsáætlanir ESB.

Orðsending framkvæmdastjórnar ESB um framkvæmdaáætlun græna sáttmálans kom til umræðu á fundi leiðtogaráðs ESB í gær, 9. febrúar, sbr. umfjöllun hér að neðan.

Umræðan um framfylgd framkvæmdaáætlunar græna sáttmálans er þó einungis á byrjunarstigi og mun halda áfram næstu vikur en beinharðar tillögur framkvæmdastjórnarinnar til ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins, svo sem um einfaldara regluverk í grænum iðnaði (e. Net-Zero Industry Act), um rýmkun á ríkisaðstoðarreglum og um breytt sjóðafyrirkomulag, eiga enn eftir að líta dagsins ljós.

Ísland er þátttakandi í ýmsum samstarfsáætlunum ESB, t.d. „Horizon Europe“ og hafa íslenskir aðilar aðgang að ýmsum styrktarsjóðum og fjármögnunarkerfum í gegnum þær áætlanir og hafa möguleikar þar verið vel nýttir af íslenskum aðilum í gegnum tíðina. Verði stofnað til nýrra samstarfsáætlana eða endurskipulagningar á sjóðakerfi ESB, eftir atvikum með millifærslu fjármuna á milli sjóða, þarf að gæta vel að hagsmunum Íslands í því sambandi. Þá eru reglur ESB um ríkisaðstoð hluti af EES-samningnum og því nauðsynlegt að fylgjast vel með þróun mála þar, með hliðsjón af samkeppnisstöðu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja bæði á alþjóðlegum mörkuðum og á innri markaði ESB. Loks geta áform um einföldun regluverks á sviði græns iðnaðar og uppbyggingu vistvænna og sjálfbærra raforkuvera haft mikil áhrif á Íslandi.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogar aðildarríkja ESB komu saman til fundar í Brussel í gær, 9. febrúar. Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, var sérstakur gestur fundarins og var árásarstríð Rússlands gagnvart landi hans vitaskuld megin umræðuefnið sem og stuðningsaðgerðir ESB við Úkraínu. Umsókn Úkraínu um aðild að ESB var einnig til umræðu og þrýsti Zelenskí mjög á um að umsóknarferlinu yrði hraðað eins og kostur væri. Þá voru refsiaðgerðir gegn Rússlandi til umræðu. Umfang refsiaðgerða sem þegar hafa verið ákveðnar á sér engin fordæmi, samanber meðal annars umfjöllun hér að neðan um innflutningsbann ESB á rússneskri olíu og verðþak. Boðaði leiðtogaráðið að áfram yrði leitað leiða til að herða þær aðgerðir enn frekar.

Meðal annarra mála sem rædd voru á fundinum voru staða mála í Tyrklandi í kjölfar þeirra miklu náttúruhamfara sem þar hafa riðið yfir og viðbrögð ESB við þeim. Þá var staða efnahagsmála á innri markaði ESB til umræðu, viðskiptamál og málefni fjármálamarkaða, innflytjenda- og flóttamannamál o.fl.

Loks var orðsending framkvæmdastjórnar ESB um framkvæmdaáætlun græna sáttmálans (e. Green deal industrial plan for the net-zero age) tekin til umræðu, sbr. sérstaka umfjöllun um þá áætlun hér að framan. Ályktana leiðtogaráðsins um þetta efni hafði verið beðið með nokkurri óþreyju en eins og rakið er að framan hafa ólík sjónarmið komið fram af hálfu aðildarríkja um það hvað teljist viðunandi og hæfileg viðbrögð til að tryggja samkeppnishæfni evrópsk tækniiðnaðar. Ályktanir fundarins bera margvísleg merki um þær málamiðlanir sem tekist hafa. T.a.m. létu leiðtogarnir sér nægja í ályktun um þetta mál að hvetja framkvæmdastjórnina til að hraða vinnu og greiningum til undirbúnings þeirra mögulegu viðbragða sem fjallað er um í áætluninni eins og kostur væri.

Reglugerð um erlenda styrki sem geta haft óæskileg áhrif á innri markað ESB

Þann 12. janúar sl. tók gildi reglugerð um erlenda styrki (e. Regulation on foreign subsidies distorting the internal market, FSR).

Afgreiðsla reglugerðarinnar gekk hratt fyrir sig í stofnunum ESB. Framkvæmdastjórn ESB lagði fram tillögu að henni í maí 2021 og var reglugerðin samþykkt af Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB í júní 2022 og birt með lögformlegum hætti í desember 2022. Í reglugerðinni er að finna heimildir fyrir framkvæmdastjórn ESB til að staðreyna óæskileg áhrif erlendra styrkja í viðskiptum og fjárfestingum í þeim tilgangi að tryggja jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja á innri markaði ESB. Reglugerðin kemur til framkvæmda 12. júlí nk., en frá þeim degi getur framkvæmdastjórnin hafið rannsókn á mögulegum óæskilegum tilvikum.

Reglugerðin nær til hvers kyns efnahagsstarfsemi innan ESB; þ.m.t. samruna og slita á fyrirtækjum, opinberra innkaupa og allrar annarrar markaðsstarfsemi. Nýju reglurnar veita framkvæmdastjórn ESB heimild til að rannsaka fjárhagsleg framlög eða stuðning frá þriðja ríki til fyrirtækja, sem eru með efnahagsstarfsemi innan ESB, með tilliti til áhrifa á samkeppnisstöðu. Ef áhrifin eru talin óæskileg eða skaðleg getur framkvæmdastjórnin gripið til ákveðinna aðgerða.

Í stórum dráttum samanstendur reglugerðin af þremur meginþáttum:

  1. Tilkynningarskyldu fyrirtækis til framkvæmdastjórnarinnar (e. Commission concentrations) þegar fyrirtæki í samrunaferli eru með veltu upp á 500 milljónir evra eða meira og fjárframlag stjórnvalda frá 3ja ríki er að minnsta kosti 50 milljónir evra (eða 10% af veltu).

  2. Tilkynningarskyldu fyrirtækis til framkvæmdastjórnarinnar þegar fyrirtæki er þátttakandi í opinberu útboði eða innkaupum þar sem samningur hljóðar upp á 250 milljónir evra eða meira og fjárframlag er að minnsta kosti 4 milljónir evra á hvert ríki.

  3. Í öllum öðrum tilvikum sem varða markaðsmál getur framkvæmdastjórnin haft frumkvæði að rannsókn ef grunur er talinn á mögulegri markaðsmisnotkun.

Reglugerðin veitir framkvæmdastjórninni mjög víðtækar rannsóknarheimildir til að safna upplýsingum, t.d. með vettvangsrannsóknum, bæði innan og utan ESB, og sömuleiðis til að rannsaka tilteknar atvinnugreinar eða tilteknar tegundir styrkja, vakni grunur um óæskilegan stuðning. Þá getur hún bannað samruna sem tengist styrkveitingu frá 3ja ríki og komið veg fyrir að styrkfyrirtæki fái samning í opinberu útboði. Reynist grunur um óæskilegar styrkveitingar á rökum reistur getur framkvæmdastjórnin lagt sekt á viðkomandi fyrirtæki sem nemur allt að 10% af árlegri heildarveltu þess. Almenna reglan er þó sú að styrkir undir 4 milljónum evra yfir 3ja ára tímabil eru taldir ólíklegir til að valda skaða. Auk þess eru styrkir sem falla undir verðmætamörk reglna um ríkisstyrki metnir óskaðlegir (e. non-distortive).

Dæmi um óæskilegan eða jafnvel skaðlegan stuðning eru m.a. lán án vaxta, ótakmarkaðar ábyrgðir, bein fjárframlög, sérstök skattaleg meðferð, skattafrádrættir og beinir styrkir svo eitthvað sé nefnt. Ýmislegt í þessari upptalningu minnir á þann ríkisstuðning sem mælt er fyrir um í bandarísku IRA-löggjöfinni (e. US Inflation Reduction Act), sem fjallað er um hér að framan.

Framkvæmdastjórnin hefur nú birt drög að framkvæmdareglugerð (e. implementing regulation) í samráðsgátt ESB þar sem ferlið sjálft varðandi tilkynningarskyldu fyrirtækja, tímafresti, aðgang að gögnum máls, reglur um trúnað o.fl. er útfært nánar og er umsagnarfrestur til 6. mars nk. Miðað er við að sú reglugerð taki gildi samhliða gildistöku stofnreglugerðarinnar í júlí nk. Ekki liggur fyrir endanleg afstaða til þess hvort reglugerðirnar teljist EES-tækar, en að líkindum er svo ekki.

Evrópska færniárið 2023

Í stefnuræðu sinni þann 14. september sl. boðaði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar ESB, að árið 2023 yrði tileinkað hæfni í Evrópu, (e. Year of skills). Í samræmi við það lagði framkvæmdastjórn ESB þann 12. október fram tillögu að ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins um málið.

Markmiðið með Evrópska færniárinu 2023 er að leggja áherslu á mikilvægi þess að efla færni og hæfni starfsfólks á vinnumarkaði m.a. með endurmenntun og símenntun. Slíkt sé nauðsynlegt til að viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífs í Evrópu og auka þátttöku fólks í atvinnulífinu Áætluninni sem sett er fram í framangreindri ákvörðun er ætlað að mæta þeim áskorunum sem uppi eru á vinnumarkaði í Evrópu vegna grænna og stafrænna umskipta. Kannanir hafi sýnt að meirihluti fyrirtækja í Evrópu telji vandkvæðum bundið að finna starfsfólk með rétta hæfni og samkvæmt DESI stuðlinum sem mælir stafræna frammistöðu, sýnir að tæplega helming Evrópubúa á aldrinum 16-74 ára skortir grunnfærni á stafræna sviðinu. Þá eru starfandi sérfræðingar á sviði upplýsingatækni í Evrópu einnig of fáir enda þótt veruleg fjölgun hafi orðið á síðustu árum.

Áætluninni er ætlað að vera samstarfsverkefni framkvæmdastjórnarinnar, Evrópuþingsins, aðildarríkjanna, opinberra aðila, aðila vinnumarkaðarins og annarra haghafa, og er þar m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Að stuðlað verði að fjárfestingu í þjálfun og endurmenntun til þess að virkja evrópskt vinnuafl og aðstoða fólk við að skipta um starfsvettvang í kjölfar stafrænna og grænna umskipta.
  • Samþættingu menntunar og starfa með því að tryggja að rétt hæfni og þekking sé til staðar í samræmi við þarfir vinnumarkaðarins.
  • Leita leiða til að laða að hæft erlent vinnuafl í samræmi við þarfir atvinnulífs í Evrópu.

Sú ákvörðun að tileinka árið færni og hæfni fellur vel saman við framkvæmdaáætlun græna sáttmálans sem fjallað er um hér að framan, en færnisátak er ein af fjórum meginstoðum þeirrar áætlunar.

Evrópska færniárið var til umfjöllunar í atvinnu- og félagsmálanefnd Evrópuþingsins í byrjun vikunnar og greiddi yfirgnæfandi meirihluti nefndarmanna atkvæði með því að hefja formlegar viðræður um upptöku áætlunarinnar á grundvelli tillagna framkvæmdastjórnarinnar.

Næstu skref í málinu eru þau að þríhliða viðræður, þ.e. þingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar, um málið geta nú hafist og gert er ráð fyrir því að Evrópska færniárið geti tekið formlega gildi í maí og standi þá til maí 2024.

Áætlunin er merkt EES-tæk en ekki er þó skylt að taka hana upp í EES-samninginn.  Líklegt er þó talið að EES-ríkin muni öll taka þátt í áætluninni enda eru áherslur hennar í ágætu samræmi við stefnumörkun ríkjanna á þessu sviði. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri nýrri fjárveitingu til þessa verkefnis en eftir því sem næst verður komist er ætlunin að fjármagna hana með fé úr European Social Fund og Just transition fund auk þess sem tengsl eru við aðrar samstarfsáætlanir ESB. 

Þrátt fyrir að endanleg ákvörðun um Evrópska færniárið hafi ekki enn formlega tekið gildi hefur framkvæmdastjórnin nú þegar boðað aðgerðir sem byggja á markmiðum þeirrar áætlunar (e.Talent Booster Mechanism). Þessum aðgerðum er ætlað að tryggja viðnámsþrótt dreifbýlla svæða sem glíma við áskoranir vegna hækkaðs lífaldurs fólks og lægra hlutfalls fólks með framhaldsmenntun (iðn- eða háskólamenntun) með því að styðja við menntun, endurmenntun og að laða að fólk til þessara svæða með rétta hæfni.

Framangreindar aðgerðir voru kynntar samhliða birtingu skýrslu nú í janúar um áhrif lýðfræðilegra breytinga í álfunni. Í skýrslunni kemur m.a. fram að verulega hafi hægt á fólksfjölgun í Evrópu þannig að hlutur Evrópu í heildaríbúafjölda heimsins hafi minnkað og muni að óbreyttu halda áfram að minnka. Þá kemur fram að öldrun haldi áfram að aukast og að hlutfall fólks 65 ára og eldra sé orðið 20,8% af heild og hafi aukist frá því árið áður en þá var hlutfallið 20,6%. Á sama tíma hefur hlutfall ungs fólks, þ.e. fólks á aldrinum 15-29 ára, lækkað úr 16,6% í 16,3% en þess má geta að þetta hlutfall var 18,1% á árinu 2011.

Óformlegir fundir samkeppnis- og viðskiptaráðherra og ráðherra vísindarannsókna

Dagana 6. – 8. febrúar 2023 héldu ráðherrar samkeppnis- og viðskiptamála og ráðherrar vísindarannsókna hjá ESB óformlega fundi í Stokkhólmi. Fundur þeirra fyrrnefndu fór fram 6.  - 7. febrúar á meðan ráðherrar vísindarannsókna funduðu 8. febrúar.

Fundur samkeppnis- og viðskiptaráðherrar ESB. Þann 6. febrúar sóttu ráðherrarnir  viðskiptaráðstefnu þar sem sænsk nýsköpunarfyrirtæki í fararbroddi fyrir grænum lausnum kynntu afurðir sínar. Á ráðherrafundinum 7. febrúar ræddu ráðherrarnir síðan leiðir til að bæta samkeppnisstöðu á innri markaði ESB, bæði til skemmri og lengri tíma, og grænu umbyltinguna. Við tók síðan umræða með þátttöku aðila úr sænsku atvinnulífi. Áherslur þeirrar umræðu, þar sem meira var horft á aðgerðir til skemmri tíma, voru meðal annars á nauðsyn þess að innri markaður legði sitt að mörkum til grænu umbyltingarinnar og að einkafjárfestar kæmu að aðgerðum til að minnka útblástur kolefnis og síðast en ekki síst hvernig samvinna um viðskipti á alþjóðamarkaði gæti stutt við markmið um græna umbyltingu.

Fundur vísinda- og rannsóknaráðherra ESB. Á fundinum efndi menntamálaráðherra Svía, Mats Persson, til stefnumótandi umræðu um hvernig þróa mætti notkun á rannsóknagögnum frá viðeigandi rannsóknarstofnunum í því skyni að vera betur í stakk búinn til að mæta félagslegum áskorunum og styrkja samkeppni. Jafnframt ræddu ráðherrarnir um opinn aðgang að vísindaniðurstöðum og -skýrslum og hvernig útgáfureglur um vísindarannsóknir muni þróast og aðlagast að rafrænu umhverfi. Jafnframt voru áhrif rafrænnar þróunar á lýðræði og réttarríkið til umræðu. Opinn aðgangur að faglegum vísindarannsóknum er mikilvægt mál hjá mörgum aðildarríkjum ESB og var meðal annars eitt af forgangsmálum tékknesku formennskunnar.

Verðþak á rússneskar olíuvörur

Ráðherraráð ESB samþykkti laugardaginn 4. febrúar sl. að setja verðþak á olíuvörur (bensín, dísel o.fl.) sem upprunnar eru í Rússlandi eða fluttar þaðan. Ákvörðunin kemur til viðbótar við ákvörðun ráðherraráðsins frá 3. desember sl. um verðþak á hráolíu (60 USA á tunnu), sem upprunnin er í Rússlandi eða flutt þaðan, og bann við innflutningi, sbr. einnig ákvörðun ráðsins frá 6. október 2022, sbr. umfjallanir í Vaktinni 7. október, 2. desember og 16. desember sl. 

Ákvörðun ráðsins nú felur jafnframt í sér endurskoðun á upphæð verðþaksins á hráolíu sem ákveðið var í 3. desember.

Frá og með 5. febrúar gilda eftirfarandi reglur um hráolíu og olíuvörur frá Rússlandi:

  • Innflutningur á bæði hráolíu og olíuvörum frá Rússlandi til ESB er bannaður.
  • Sjóflutningar á hráolíu frá Rússlandi, og önnur þjónusta því tengd, eru bannaðir ef verðið er yfir 45 dollurum á tunnu.
  • Sjóflutningar á bensínvörum frá Rússlandi og önnur þjónusta því tengd erubannaðir ef verðið er yfir 100 dollara tunnu.

Framangreindar ákvarðanir um verðþak á hráolíu annars vegar og olíuvörur hins vegar eru teknar sameiginlega af ESB, G7-ríkjunum og Ástralíu sem saman hafa myndað bandalag um verðþak á olíu og olíuvörur frá Rússlandi (e. Price Cap Coalition). Hugmyndafræðin er að knýja niður það verð sem Rússum býðst fyrir olíuvörur sínar um leið og þess er gætt að valda ekki of mikilli röskun á alþjóðlegum olíumarkaði og eru vísbendingar um að þessar ráðstafanir séu farnar að hafa umtalsverð áhrif á olíutekjur Rússlands.  

Gert er ráð fyrir að verðþökin verði tekin til endurskoðunar um miðjan mars og síðan er ráðgert að endurskoða þau reglulega á tveggja mánaða fresti.

Tilmæli ráðherraráðs ESB til aðildarríkjanna um lágmarksframfærslu

Þann 30. janúar sl. samþykkti ráðherraráð ESB tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá 28. september 2022 um útgáfu tilmæla um viðunandi lágmarksframfærslu til að berjast gegn fátækt og stuðla að aukinni atvinnuþátttöku í aðildarríkjunum. Lágmarksframfærsla er skilgreind sem tekjutengd fjárhagsleg aðstoð til þrautavara fyrir fólk undir tilteknum tekjumörkum til þess að það geti lifað mannsæmandi lífi.

Tilmælin eru hluti félagslegu réttindastoðarinnar ESB (e. European Pillar of Social Rights), en fjallað var um þá stefnumörkun ESB í Vaktinni 18. nóvember sl. Er tilmælunum ætlað að leysa af hólmi eldri tilmæli ráðsins frá 1992 um félagslega aðstoð og félagslega vernd, (92/441/EEC) auk þess sem þeim er ætlað að styðja við tilmæli ráðsins frá 2008 um virka þátttöku fólks með takmarkaða starfsgetu (2008/867/EC). Tilgangur tilmælanna er að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun og stuðla að aukinni atvinnuþátttöku með því að tryggja lágmarksframfærslu og greiðan aðgang að þjónustu fyrir einstaklinga sem geta ekki framfleytt sér sjálfir og stuðning til þeirra sem hafa starfsgetu til að leita sér atvinnu.

Enda þótt öll aðildarríki ESB hafi byggt upp félagsleg úrræði til að tryggja lágmarksframfærslu, þá er efni og umfang úrræðanna afar mismunandi milli aðildarríkja.

Tilmælin byggja á þeirri grunnhugsun að félagslegt öryggisnet sé til þess fallið að draga úr félagslegum ójöfnuði og misskiptingu innan aðildarríkjanna. Slík almannatryggingakerfi auki félagslega samstöðu og stuðli að þátttöku vinnufærra á vinnumarkaði. Vel hannað kerfi tryggi öllum viðunandi framfærslu er nægi til að lifa mannsæmandi lífi með virkri þátttöku í samfélaginu um leið og það feli í sér innbyggða hvata til atvinnuþátttöku.

Í tilmælunum felast ráðleggingar til aðildarríkjanna um hvernig koma megi á fót traustu og aðgengilegu félagslegu stuðningskerfi samkvæmt framansögðu og er m.a. mælst til þess að hlutaðeigandi hagsmunaaðilum í aðildarríkjunum sé veitt aðkoma við ákvörðun um viðunandi lágmarksframfærslu og að slíkar ákvarðanir séu endurskoðaðar reglulega til þess að tryggja nægjanleika.  

Í tilmælunum er jafnframt að finna ráðleggingar um annan fjárhagslegan stuðning, s.s. félagslegt húsnæði, auk niðurgreiðslu fyrir ýmsa þjónustu, svo sem heilsugæslu,  orku, leikskólagjöld og almenningssamgöngur og fleira eftir því sem við á. 

Gert er ráð fyrir því að aðildarríkin geti sótt um stuðning úr European Social Fund Plus til þess að fjármagna verkefni á þessu sviði. Framkvæmdastjórnin mun hafa eftirfylgni með tilmælunum gagnvart aðildarríkjunum.

Á Evrópuþinginu hefur það verið gagnrýnt að tilmæli af þessu tagi hafi ekki dugað til þess að ná fram fullnægjandi kerfisbreytingum í aðildarríkjunum og því kunni að vera nauðsynlegt að mæla fyrir um þessi málefni með tilskipun sem sé bindandi fyrir aðildarríkin og hefur í því sambandi verið vísað til nýlegrar tilskipunar um lágmarkslaun en um þá tilskipun hefur verið fjallað í Vaktinni, nú síðast þann 27. janúar sl.

Áherslumál ESB gagnvart Evrópuráðinu 2023-2024

Ráðherraráð ESB (e. Council of the European Union) birti hinn 30. janúar sl. ályktun um helstu áherslumál sambandsins gagnvart Evrópuráðinu (e. Council of Europe) fyrir árið 2023-2024. Þess ber að geta að um er að ræða aðskildar stofnanir en Evrópuráðið var stofnað árið 1949 í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og eru aðildarríki þess nú 46 talsins, en aðildarríki ESB eru 27. Ísland er beinn aðili að Evrópuráðinu og gegnir um þessar mundir formennsku í ráðinu. Evrópuráðið sinnir fjölbreytilegum málaflokkum eins og mannréttindamálum, félagsmálum, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum, menntunar- og menningarmálum ásamt samvinnu á sviði löggjafar svo að dæmi séu nefnd.

Áherslurnar sem útlistaðar eru í ályktun ráðherraráðs ESB skiptast í grunninn í þrennt: 1) að halda á lofti og verja mannréttindi, 2) verja og stuðla að lýðræði í álfunni og 3) tryggja og styrkja réttarríkið. Auk þess segir að stríðið í Úkraínu, sem nú hefur varað í tæplega ár, gefi tilefni til aukins samstarfs ráðherraráðs ESB og Evrópuráðsins. Tilefnislaus og ólögmæt innrás Rússa í Úkraínu gangi gegn hinu ríkjandi alþjóðlega skipulagi, alþjóðalögum og lýðræðislegum grunni og skipulagi stjórnmála-, félags- og efnahagskerfis Evrópu.

Aukinheldur er lögð áhersla á eflingu marghliða samvinnu (e. multilateralism) sem átt hefur undir högg að sækja í alþjóðakerfinu á undanförnum árum. Í því sambandi verði ríki að virða og koma sér saman um sameiginlegt regluverk — það sé besta leiðin til að stuðla að og viðhalda friði og öryggi.

Hvað tvíhliða vinnu ESB og Evrópuráðsins varðar muni ESB áfram beita sér á grundvelli samkomulags frá 2021 sem felur í sér innleiðingu sameiginlegrar framkvæmdaáætlunar beggja aðila, að fjárhæð 207,4 milljóna evra, og leggur ríka áherslu á mannréttindi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu.

Þá leggur ESB í ályktuninni áherslu á miðlæga stöðu mannréttinda eins og þau eru tryggð í mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og túlkuð af Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE). Í því sambandi leggur ESB áherslu á mikilvægi þess að það hljóti aðild að MSE og geti þannig átt formlega aðkomu að MDE og þeim málum sem þar eru tekin fyrir. Samningaviðræður þess efnis hafa staðið yfir allt frá 2001. Samningur náðist árið 2013 en honum var hafnað af Evrópudómstólnum (e. European Court of Justice), dómstóli ESB. Viðræður hófust að nýju árið 2019 og er ekki lokið.

ins og áður segir fer Ísland með formennsku í Evrópuráðinu um þessar mundir (frá nóvember 2022 og fram í maí á þessu ári). Gefin hefur verið út áætlun sem lesa má á vefsvæði formennskunnar en hún nær hámarki þegar haldinn verður leiðtogafundur í Reykjavík dagana 16.-17. maí nk.

Ítarlegri útlistun á áherslum ESB gagnvart Evrópuráðinu 2023-2024 má finna í ályktun ráðherraráðsins hér.

Frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið

Utanríkisráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið í samráðsgátt stjórnvalda.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný 4. gr., til viðbótar 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, þess efnis að þegar lagaákvæði sem réttilega innleiðir skýra og óskilyrta reglu á grundvelli EES-samningsins er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skuli hið fyrrnefnda ganga framar.

Umsagnarfrestur er til 21. febrúar nk.

Skýrsla um formennsku Íslands í fastanefnd EFTA í EES-samstarfinu á seinni hluta árs 2022

EFTA hefur birt skýrslu um formennsku Íslands í fastanefnd EFTA í EES-samstarfinu á seinni hluta árs 2022. Í skýrslunni er farið yfir áherslur formennskunnar starfsemi EFTA á tímabilinu og rekstur EES-samningsins. Gert er m.a. er grein fyrir fundi EES-ráðsins sem fram fór í fyrsta skipti í húsakynnum EFTA þann 23. nóvember sl. undir formennsku Íslands og ráðstefnu sem Ísland efndi til um orkumál í byrjun desember, en frá hvorutveggju var sagt í Vaktinni 2. desember sl. Samtals voru 279 nýjar gerðir teknar upp í samninginn á tímabilinu. Í formennskutíð sinni lagði Ísland ríka áherslu á að leitað væri leiða til að bæta málsmeðferð við upptöku gerða í EES-samninginn og að minnka upptökuhallann.

Í skýrslunni er vikið að EES EFTA-álitum sem send voru til ESB á tímabilinu og hagsmunagæslu Íslands vegna væntanlegrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins þar sem til stendur að gera breytingar á viðskiptakerfi (ETS-kerfið) með losunarheimildir í flugi en mikil vinna hefur verið lögð í það að koma málstað Íslands á framfæri á undanförnum misserum eins og reglulega hefur verið sagt frá í Vaktinni, nú síðast 16. desember. Loks er í skýrslunni farið yfir þá hagræðingu sem náðst hefur fram undir formennsku Íslands í starfsemi EFTA í Brussel, meðal annars með sameiginlegri stoðþjónustu, sem nú er möguleg þar sem starfsemi EFTA er nú öll komin undir sama þak.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta