Frumvarpsdrög um sameiningu héraðsdómstóla í Samráðsgátt
Dómsmálaráðherra hefur lagt drög að frumvarpi til laga um sameiningu héraðsdómstóla fram í samráðsgátt. Með frumvarpinu, sem byggist einkum á skýrslu starfshóps um sameiningu héraðsdómstólanna frá desember 2022, er lagt til að átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn dómstól undir nafninu Héraðsdómur. Lagt er til að yfirstjórn hans verði staðsett í Reykjavík, að dómstóllinn hafi átta lögbundnar starfsstöðvar á þeim stöðum sem héraðsdómstólar eru nú starfræktir auk þess sem gerð er tillaga um lögbundinn lágmarksfjölda starfsmanna á hverri starfsstöð. Kveðið verði á um það í lögum um dómstóla að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af að minnsta kosti tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi.
Héraðsdómarar myndu eftirleiðis starfa við einn og sama dómstólinn og að úthlutun allra mála sem rekin yrðu í héraði yrði á hendi eins dómstjóra. Dómstjóri gæti úthlutað málum án tillits til þess hvar héraðsdómarar og dómarafulltrúar hafi fasta starfsstöð og án tillits til þess á hvaða starfsstöð mál séu rekin. Þannig getur til að mynda skapast svigrúm til þess að útivistarmál af ýmsum toga verði afgreidd af dómurum og dómarafulltrúum á hvaða starfsstöð Héraðsdóms sem er og eftir atvikum önnur mál. Með þessu ætti jafnframt að verða svigrúm til að nýta mannauð á héraðsdómstiginu betur en nú er og eftir atvikum skapa sérhæfingu í tilteknum málaflokkum ef það þykir heppilegt.
Lagt er til að dómstólasýslunni verði fengnar auknar heimildir til að setja reglur um starfsemi Héraðsdóms, þar á meðal um úthlutun dómsmála og um undirbúning að skipun dómstjóra og varadómstjóra.
Er auk þess lagt til að sameining héraðsdómstólanna taki gildi 1. ágúst 2024 en dómstjóri verði skipaður frá 1. mars 2024 til þess meðal annars að undirbúa sameininguna og stofnun dómstólsins.
Verði frumvarpið að lögum er ráðgert að í framhaldinu leggi dómsmálaráðherra fram annað frumvarp þar sem mælt verði fyrir um breytingar á réttarfarslöggjöf sem nauðsynlegar verða ef héraðsdómstólar landsins sameinast í einn dómstól.
Umsagnarfrestur er til 24. febrúar 2023 og eru drögin aðgengileg á vef Samráðsgáttar: