Matvælaráðherra mælti fyrir frumvarpi um tegundatilfærslu í deilistofnum botnfisks
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mælti fyrir frumvarpi á Alþingi í gær um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem sett er fram til að koma í veg fyrir ofveiði á gullkarfa og grálúðu.
Án aðgerða eykst uppsafnaður umframafli Íslands í gullkarfa frá ári til árs og þar með afli umfram ráðgjöf, sem er ekki í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Breytingunum er ætlað að tryggja að veiðar á gullkarfa og grálúðu séu í samræmi við útgefið aflamark og vísindaráðgjöf og því stuðla að sjálfbærri nýtingu þessara fiskistofna.
Tegundatilfærsla heimilar að afli í einni tegund dragist að ákveðnu marki frá aflaheimildum skips í annarri tegund. Frumvarpinu er jafnframt ætlað að fylgja eftir milliríkjasamningum um þessa stofna. Einnig er kveðið á um heimild ráðherra til að færa aflamark hryggleysingja og deilistofna uppsjávartegunda milli ára til sveiflujöfnunar ásamt ákvæði um heimild til umframveiði, líkt og gildir um aðrar tegundir nytjastofna.
Heildarveiði úr gullkarfastofninum hefur því verið umfram heildaraflamark og ráðgjöf. Möguleiki er á tegundatilfærslu í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Samkvæmt tvíhliða samningi við Grænland hafa íslenskar útgerðir veitt töluvert umfram samningsbundinn hlut sinn úr gullkarfastofninum síðustu ár. Vegna tegundatilfærslu hefur heildarafli grálúðu aftur á móti verið minni en sem svarar samningsbundnum hlut Íslands. Sá möguleiki er samt fyrir hendi að sambærileg staða geti komið upp varðandi grálúðu og er nú uppi varðandi gullkarfa og því eiga sömu röksemdir við.
Umframaflinn er að auki í bága við samning Íslands og Grænlands um deilistofna og að óbreyttu eru líkur til að Grænland rifti þeim samningi. Umræddri breytingu er því einnig ætlað að hafa áhrif á samningaviðræður um aðra deilistofna og bæta stöðu Íslands við samningaborð við erlend ríki.
Frumvarpið hefur verið unnið í matvælaráðuneytinu í samráði við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning
Helstu atriði frumvarpsins
- Lagt er til að breyta ákvæði um stjórn fiskveiða, um tegundatilfærslu deilistofna botnfisks, þannig að heimildin gildi ekki um íslenska deilistofna botnfisks (gullkarfa og grálúðu).
- Lagt er til að heimilt sé að flytja allt að 15% af aflamarki deilistofna uppsjávartegunda (kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar) frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta, og 5% af aflamarki hryggleysingja. Er það gert til að styrkja lagagrundvöll slíkrar ráðstöfunar en einnig að mæla fyrir um hámark flutnings, þótt áfram gildi heimild ráðherra um hærra hlutfall. Er það í samræmi við heimildir sem gilda um aðra nytjastofna.
- Lagt er til að heimilt sé að veiða allt að 3% umfram aflamark hryggleysingja og allt að 5% umfram aflamark í deilistofnum uppsjávartegunda (kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar) enda dregst umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir, í samræmi við heimildir sem gilda um aðra nytjastofna.
„Þeim breytingum sem fram koma í þessu frumvarpi er ætlað að tryggja að veiðar á gullkarfa og grálúðu séu í samræmi við útgefið aflamark og vísindaráðgjöf,“ sagði matvælaráðherra. „Það er í samræmi við þær áherslur sem ég hef sett í málaflokknum, þannig stuðlum við að sjálfbærri nýtingu þessara fiskistofna.“