Ásgerður Pétursdóttir skipuð í peningastefnunefnd
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Ásgerði Pétursdóttur, lektor í hagfræði við Háskólann í Bath á Englandi, í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands frá 21. febrúar nk. til næstu fimm ára. Ásgerður tekur sæti Gylfa Zoëga sem setið hefur í peningastefnunefnd frá árinu 2009 en hann hefur setið hámarksskipunartíma í nefndinni.
Ásgerður er með doktorspróf í hagfræði frá University of New South Wales í Sydney, Ástralíu og lauk meistaraprófi í hagfræði frá sama háskóla. Hún hefur unnið á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands og stundað rannsóknir við rannsóknardeild Seðlabankans í Svíþjóð. Rannsóknir og kennsla Ásgerðar eru á sviði peningahagfræði. Hún hefur þróað og unnið með líkön til að greina hagfræðileg úrlausnarefni er varða m.a. fjármálamarkaði, rafræna seðlabankamynt og framkvæmd peningastefnu. Ásgerður hefur haldið fjölda fyrirlestra um rannsóknir sínar við seðlabanka og aðra stofnanir víða um heim.
Um peningastefnunefnd
Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum. Stjórntæki bankans í þessu sambandi eru vextir bankans, viðskipti við lánastofnanir og önnur þrautavaralán, ákvarðanir um bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það markmið að hafa áhrif á gengi krónunnar.