Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menningar- og viðskiptaráðherra mælir fyrir heildarramma í málefnum tónlistar

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi að tónlistarlögum og þingsályktunartillögu um tónlistarstefnu fyrir árin 2023-2030. Um er að ræða bæði fyrstu heildarlög um tónlist í landi og fyrstu opinberu stefnu í málefnum tónlistar á Íslandi. 

,,Ný heildarlög um tónlist og tónlistarstefna marka ákveðin vatnaskil fyrir tónlistarlífið í landinu. Framundan eru nokkuð róttæktar breytingar til þess að efla stuðningskerfi tónlistar á Íslandi og styðja við íslenskt tónlistarfólk í verkum sínum, bæði hérlendis og erlendis. Aukin fjárframlög hafa þegar verið tryggð til þess að innleiða breytingarnar,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði á degi íslenskrar tónlistar þann 1. desember 2020. Ákveðið var að vinna lagafrumvarpið og þingsályktun um tónlistarstefnu samhliða og leggja þannig fram heildarramma fyrir málefni tónlistar til að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi.

Við samningu frumvarpsins er einnig litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem samþykkt var að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa íslensku listafólki fleiri tækifæri.

Ný tónlistarmiðstöð

Í frumvarpi að nýjum tónlistarlögum er kveðið á um að ný tónlistarmiðstöð verði sett á laggirnar. Henni er ætlað að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina.

Innan hennar verða þrjú kjarnasvið:

  • Inntón mun sinna fræðsluhlutverki og stuðningi við innlendan tónlistariðnað.
  • Útón mun veita útflutningsráðgjöf og styðja við útflutningsverkefni allra tónlistargreina.
  • Tónverk mun svo sjá um skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka, meðal annars með því að halda úti nótnaveitu, rafrænum nótnagrunni.

Með sameiningu þessara verkefna undir hatti tónlistarmiðstöðvar er ætlunin að gefa þeim aukinn slagkraft og nýta samlegðaráhrif þeirra.

Nýr tónlistarsjóður

Með frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að sameina þrjá sjóði sem eru til staðar á sviði tónlistar í einn sameiginlegan sjóð með það að markmiði að einfalda styrkjaumhverfi íslensks tónlistarlífs og auka skilvirkni þess. Þá verður hægt að sækja um styrki í sjóðnum með mun meiri fyrirvara en hefur verið í sjóðunum þremur.

Nýr Tónlistarsjóður mun taka yfir hlutverk Tónlistarsjóðs, Hljóðritasjóðs og Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar.

Tónlistarmenntun

Með tónlistarstefnu er svo mótuð framtíðarsýn og vegvísar með það að markmiði að styðja við tónlistarlíf í landinu, tryggja inngildingu og aðgengi almennings að tónlist og tónlistarmenntun.

Tónlistarstefnan inniheldur þrjár megináherslur; áherslu á tónlistarmenningu og -menntun, áherslu á tónlist sem skapandi atvinnugrein og áherslu á útflutning á íslenskri tónlist. Þar er lagt til að hafin verði heildarendurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla, átak verði gert í nýliðun tónlistarkennara og að ráðist verði í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis Listaháskóla Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta