Mikil ánægja með verkefni sem miðar að því að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt verkefninu Project SEARCH áframhaldandi stuðning en markmið þess er að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði. Aðferðafræði verkefnisins er að bandarískri fyrirmynd og starfað er eftir módelinu víða um heim. Project SEARCH felur í sér níu mánaða starfsnám sem miðar að því að þátttakendur öðlist færni og sjálfsöryggi til að takast á við störf á almennum vinnumarkaði.
Í byrjun árs 2022 veitti ráðherra Ási styrktarfélagi styrk til þess að þróa og innleiða verkefnið hér á landi og finna samstarfsaðila til þess að hýsa námið. Landspítali háskólasjúkrahús sýndi verkefninu áhuga og sl. haust hófu sex einstaklingar starfsnám á spítalanum. Starfsnemarnir hittu ráðherra nýverið, sýndu honum vinnustaðinn og sögðu frá starfinu. Við sama tækifæri undirritaði ráðherra 36 m.kr. samning um áframhaldandi stuðning við verkefnið. Samningurinn mun gera Ási kleift að bjóða fleiri einstaklingum að hefja starfsnám næsta haust.
Helga Davíðsdóttir sýnir ráðherra hvað hún gerir í eldhúsinu á Landspítalanum á Hringbraut.
„Project SEARCH hefur í för með sér ný og spennandi tækifæri fyrir ungt, fatlað fólk,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. „Það er stórkostlegt að sjá starfsnemana blómstra. Ég hef lagt áherslu á að fjölga verulega starfstækifærum fyrir fatlað fólk og einstaklinga með mismikla starfsgetu og það er frábært að sjá það raungerast.“
„Að auka tækifæri á almennum vinnumarkaði skiptir máli fyrir okkur öll. Með þessu verkefni er unnið með styrkleika fólks. Það opnar ný tækifæri fyrir fatlað fólk og ekki síst fyrir atvinnurekendur til að sækja vinnuafl til hóps sem ekki hefur verið fjölmennur á vinnumarkaði hingað til,“ segir Þóra Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Ás styrktarfélags.
Védís Harðardóttir útskýrir hvernig hún tekur til allt sem er á listanum og sendir það síðan upp á deildir.Aukin trú á eigin getu
Starfsnemarnir í Project SEARCH hafa síðan í september lært störf á þjónustusviði Landspítalans. Þrír eru í eldhúsi, einn í línafgreiðslu og tveir starfa við að sótthreinsa sjúkrarúm. Hver og einn nemandi er í tíu vikur á hverri deild og áhersla er lögð á að þau öðlist færni í fjölbreyttum verkefnum.
Starfsfólk á vegum Áss styrktarfélags heldur utan um nemendurna og samhliða starfsnáminu fá þau fræðslu um ýmislegt er varðar atvinnumál, réttindi, skyldur, samskipti, samvinnu, fjármál og fleira sem nýtist til aukins sjálfstæðis og þegar komið er út á almennan vinnumarkað.
Róbert Alexander Erwin ræðir málin við ráðherra.
Að sögn Landspítalans hafa nemendurnir náð miklum framförum, öðlast öryggi í þeim störfum sem þeim hafa verið falin og aukna trú á eigin getu. Samstarfsfólkið hefur enn fremur mætt þeim af jákvæðni og hjálpsemi.
Á seinni hluta námstímans fá nemarnir síðan aðstoð við að sækja um störf og undirbúa sig fyrir almenna atvinnuþátttöku. Eftirfylgni verður jafnframt með þeim sem lokið hafa námi, fylgst með starfsferli þeirra og þau aðstoðuð eftir þörfum.
Róbert Alexander Erwin, starfsnemi:
„Aldrei gefast upp á að uppfylla drauma þína.“
Védís Harðardóttir, starfsnemi:
„Æfingin skapar meistarann.“
Shane Kristófer Mapes, starfsnemi:
„Ég finn sjálfur verkefnin sem þarf að vinna.“
Styrksamkomulagið undirritað.
Guðmundur Ingi ræðir við hópinn. Á myndinni sjást meðal annars starfsnemarnir Auður, Kristófer og Róbert.
Védís í viðtali við RÚV! Innslagið er ekki lengur aðgengilegt á vef RÚV.
Hópmynd eftir undirritun styrksamkomulagsins. Nýr hópur mun geta hafið starfsnám í haust undir merkjum Project Search hjá Styrktarfélaginu Ási.
Frábærar móttökur í alla staði!