Degi íslenska táknmálsins fagnað
Degi íslenska táknmálsins var fagnað laugardaginn 11. febrúar með margvíslegum hætti. Íslenskt táknmál er fyrsta mál á þriðja hundrað Íslendinga en fjölmargir utan þess hóps nýta sér íslenskt táknmál í daglegu lífi og starfi.
„Dagur íslenska táknmálsins er afar mikilvægur dagur, ekki aðeins fyrir íslenska döff-samfélagið heldur samfélagið í heild sinni. Á honum er athygli vakin á stöðu eina hefðbundna minnihlutamálsins á Íslandi. Við höfum verið að veita íslensku táknmáli meira vægi og einn mikilvægasti áfanginn í þeirri vinnu var að semja stefnu um íslenskt táknmál sem verður lögð fyrir þingið í vor,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnan var unnin eftir tillögum frá Málnefnd um íslenskt táknmál, sem er stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni íslenska táknmálsins. Vinnan er í samræmi við þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, en í henni var kveðið á um að málstefna um íslenskt táknmál yrði gerð.
Í tilefni dagsins var meðal annars boðið upp á táknmálstúlkun á 112 deginum sem haldinn var í Hörpu 11. febrúar og sinntu táknmálstúlkar frá Samskiptastöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) túlkuninni. Stofnunin sinnir meðal annars túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku, rannsóknum á íslensku táknmáli og kennslu íslensks táknmáls og námsefnisgerð. Hjá Samskiptamiðstöðinni starfa tæplega 30 starfsmenn að því að efla þjónustu við táknmálstalandi fólk sem víðast í samfélaginu.
SHH gaf út þrjú fræðslumyndbönd til að vekja athygli á deginum.
- Fyrsta myndbandið er sérstaklega útbúið fyrir döff börn og var unnið í samstarfi við táknmálstalandi börn og foreldra. Myndbandið var sýnt á KrakkaRÚV um helgina.
- Annað myndbandið er fyrirlestur Júlíu G. Hreinsdóttur, fagstjóra kennslu, sem fjallar um MA-rannsókn sína á ástæðum og áhrifum lagalegrar viðurkenningar á íslensku táknmáli.
- Það þriðja er svo fyrirlestur Hólmfríðar Þóroddsdóttur, verkefnastjóra myndbandageymslu og varðveislu, sem fjallar um MA-rannsókn sína á undirbúningi táknmálstúlka og áhrifum hans á gæði túlkunarinnar.
Síðastliðinn fimmtudag fór svo fram viðburður á vegum málnefndarinnar og Borgarbókasafnsins þar sem Jakob Grojs sagði frá upplifun og reynslu sinni við að flytja til íslands og læra íslenskt táknmál.