Tólf verkefni fá 130 milljónir til að efla byggðir landsins
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til 12 verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1). Alls bárust 32 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 857 m.kr. fyrir árið 2023.
Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.
Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Verkefnin sem hljóta styrk eru:
- Kostir í hitaveituvæðingu Grímseyjar. Fyrirhugað er að staðsetja vinnsluholu og endurmeta fyrri gögn. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) hljóta styrk að upphæð 4.300.000 kr.
- Verðmætasköpun á sauðfjárræktarsvæðum. Verkefnið er hvati til nýsköpunar og verðmætasköpunar í strjálbýli sem á mikið undir sauðfjárrækt og miðar að því að tryggja byggðafestu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 21.600.000.
- Vatnaskil – nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf í dreifbýli á Austurlandi með sérstaka áherslu á ungt fólk. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hlýtur styrk að upphæð 13.000.000 kr.
- Dalabyggð í sókn – ímynd, aðdráttarafl og staðarandi. Útbúa vörumerki og verkfærakistu fyrir Dalabyggð sem nýtist m.a. til að móta stefnu í markaðssetningu fyrir nýja íbúa, fjárfesta og í ferðaþjónustu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hljóta styrk að upphæð 11.200.000.
- Styrking innviða á Laugarbakka í Miðfirði til eflingar atvinnustarfsemi. Verkefnið snýr að lagningu kaldavatnslagnar frá Hvammstanga til Laugarbakka. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 15.000.000.
- Baskasetur á Djúpuvík. Byggja á upp Baskasetur Íslands sem verði miðstöð skapandi sjálfbærni, tengt lífríki hafsins. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk að upphæð 15.000.000.
- FabLab á Suðurnesjum. Starfræn smiðja rekin í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hljóta styrk að upphæð 10.000.000 kr.
- Iðnaðar- og þróunarsvæði á Drangsnesi. Verkefnið snýr að þorskseiðaeldi í framhaldi af rannsóknum Ocean EcoFarm ehf. í Steingrímsfirði. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk að upphæð 7.000.000 kr.
- Straumhvörf – ný hringrás gesta um Austur- og Norðurland. Um er að ræða samstarf SSA, SSNV, SSNE, áfangastofa Norður- og Austurlands, Austurbrúar og Markaðsstofu Norðurlands um framkvæmd hönnunar- og vörusmiðju nýrrar hringrásar ferðamanna um Austur- og Norðurland í tengslum við beint millilandaflug á Egilsstaði og Akureyri. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hljóta styrk að upphæð 15.650.000 kr.
- Uppbygging sérfræðistarfa við þróun þekkingartengdrar ferðaþjónustu á miðsvæði Suðurlands. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hljóta styrk að upphæð kr. 10.000.000.
- Gígur – uppbygging á aðstöðu fyrir nýsköpun, menntun og rannsóknir í Þingeyjarsveit. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð 2.250.000 kr.
- Iðngarðar í Búðardal. Þarfagreining og frumhönnun á atvinnuhúsnæði fyrir iðngarða, sem skapa á aðstöðu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hljóta styrk að upphæð kr. 5.000.000.
Í valnefndinni sitja þau Elín Gróa Karlsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu, Sigurður Árnason, sérfræðingur á Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Með valnefnd starfar Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun innviðaráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.