Efling fælingar og varna og aukinn stuðningur við Úkraínu
Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins lauk í Brussel í dag 15. febrúar. Meginefni fundarins voru stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu og efling sameiginlegs viðbúnaðar og varna bandalagins.
Ráðherrarnir ræddu stríðsrekstur Rússlands gegn Úkraínu við Oleksii Reznikov varnarmálaráðherra sem gerði grein fyrir stöðunni og mikilvægi áframhaldandi stuðnings alþjóðasamfélagsins. Fjölmörg ríki leggja sitt af mörkum til stuðningssjóðs Atlantshafsbandalagsins fyrir Úkraínu og tilkynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, sem sótti fundinn, um aukin framlög til kaupa á eldsneyti og matarpökkum fyrir úkraínska herinn. Framlagið sem tilkynnt var um á fundinum nemur um 1,7 milljón evra og verður veitt í sjóð á vegum bandalagsins.
„Það er mikilvægt að við sýnum öll stuðning okkar við Úkraínu í verki. Hugrekki íbúa Úkraínu andspænis hrottafengnu árásarstríði Pútíns er aðdáunarvert. Samstaða um mikilvægi þess að styðja við Úkraínu er órofa. Ísland hefur leitast við að finna leiðir til þess að leggja sitt af mörkum meðal annars með mannúðaraðstoð, fjárhagsaðstoð og með stuðningi við varnartengd verkefni og það munum við halda áfram að gera,“ segir Þórdís Kolbrún.
Í seinni vinnulotu fundarins var fjallað um vinnu við eflingu sameiginlegra varna og fælingarmáttar bandalagsins til að bregðast við breyttum öryggishorfum í kjölfar árásarstríðs Rússlands. Mikilvægur liður í þeirri vinnur er einnig efling viðnámsþols bandalagsríkja og var sérstaklega rætt um vinnu sem snýr að vernd neðansjávarinnviða.
„Það er jákvætt hversu hratt bandalagið nær að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og í því samhengi lagði ég ríka áherslu á mikilvægi þess að Finnland og Svíþjóð, sem hafa mikið fram að færa, verði sem fyrst fullgild aðilarríki að bandalaginu,“ segir utanríkisráðherra.
Varnarmálaráðherrar þeirra ríkja sem lagt hafa fjármagn til sjóðs um varnir Úkraínu, sem Bretar hafa forystu um að reka, hittust einnig í tengslum við fundinn. Ísland hefur veitt sem svarar þremur milljónum sterlingspunda til sjóðsins.
Í aðdraganda varnarmálaráðherrafundarins hittust rúmlega fimmtíu ríki, þar af öll bandalagsríkin ásamt fjölda samstarfsríkja, á fundi vinnuhóps um stuðning við Úkraínu (e. Ukraine Defence Contact Group) sem Bandaríkin leiða. Á fundinum var algjör samstaða um áframhaldandi stuðning við varnir Úkraínu og tilkynntu fjölmörg ríki um aukin framlög til að mæta þörfum Úkraínu.