Forsætisráðuneytið veitir Samtökunum ´78 aukinn fjárstyrk
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78, skrifuðu í dag undir samning um áframhaldandi stuðning við starfsemi samtakanna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Núverandi ríkisstjórn hefur stóraukið stuðning sinn við Samtökin ´78, meðal annars til að berjast gegn hatursorðræðu og fordómum sem hinsegin fólk verður því miður í auknum mæli fyrir. Á árabilinu 2017-2022 sjöfölduðust heildarfjárframlög ríkisins til Samtakanna vegna skýrrar forgangsröðunar í þágu réttindabaráttu hinsegin fólks. “
Í samningnum kemur fram að stjórnvöld muni veita Samtökunum ´78 25 milljón króna framlag sem Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga og kemur til viðbótar við árlegt 15 milljón króna framlag frá forsætisráðuneytinu sem veitt hefur verið samkvæmt sérstökum þjónustusamningi. Þá fá samtökin til viðbótar tímabundið framlag að upphæð 15 milljónir króna sem Alþingi samþykkti að veita samtökunum til að vinna gegn bakslagi gegn hinsegin fólki í samfélaginu.