Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vel heppnað samráðsþing um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, flytur erindi. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, fundarstjóri og aðstoðarmaður félags- og vinnumarkaðsráðherra stendur hjá.  - mynd

Um 300 manns sóttu samráðsþing í Hörpu um landsáætlun um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fjöldi fólks tók til máls og vinnuhópar við gerð landsáætlunar kynntu tillögur sínar að aðgerðum. Þátttakendum bauðst síðan að greiða tillögunum atkvæði. Í lok þingsins undirrituðu gestir samstarfsyfirlýsingu um verklag við gerð landsáætlunar – og þurfti fjögurra metra langan borða fyrir undirritunina.

Að þinginu stóðu félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ásamt forsætisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ÖBÍ réttindasamtökum, Landssamtökunum Þroskahjálp og Geðhjálp.

Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Landsáætlunin markar tímamót, enda fer nú í fyrsta sinn fram heildstæð stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Markmiðið er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk.

Samráðsþingið nú í dag var liður í gerð landsáætlunarinnar. Áætlunin mun ná til allra þeirra málefnasviða sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Henni fylgja skýrt skilgreind markmið og aðgerðir til að ná markmiðunum. Við setningu markmiðanna verða settir fram mælikvarðar og framvindan verður síðan metin á árlegu samráðsþingi.

„Með landsáætluninni um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mun verða grundvallarbreyting hvað varðar viðurkenningu á réttindum, menntun, störfum og aðgengi fatlaðs fólks,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í opnunarávarpi sínu á þinginu.

„Ég skynja nýja strauma sem snúast um raunverulegan vilja til að skapa nýja framtíð sem tryggir aðgengilegra samfélag sem rúmar okkur öll sem hér búum. Samfélag þar sem við öll eigum raunhæfa möguleika á að uppgötva og nýta hæfileika okkar á þeim sviðum sem hverju og einu okkar langar til og á eigin forsendum.“

  

Upptaka af þinginu: 

Bein

Fullt af ljósmyndum af þinginu öllu: 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta