Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Niðurstöður eftirfylgniúttektar á lögreglufræðinámi við HA

Gæðaráð íslenskra háskóla hefur nú birt niðurstöður eftirfylgniúttektar á gæðum náms í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Úttektin er liður í skipulegu eftirliti ráðsins með gæðum íslenskra háskóla með áherslu á nemendur, námsumhverfi og prófgráður.

Úttektarhópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Akureyri til að tryggja gæði náms og þess námsumhverfis sem hann býður nemendum sínum í lögreglufræðum, í nútíð og nánustu framtíð.

Styrkleikar lögreglufræðinámsins eru, samkvæmt helstu niðurstöðum úttektarinnar, fyrirkomulag við kennslumat námsleiðarinnar og miðlæg og kerfisbundin nálgun við árlegt mat á námsleiðinni. Þá bar úttektarhópurinn kennsl á umtalsverðar framfarir sem hafa orðið í að bæta samskipti milli fræðilegra og verklegra kennara námsleiðarinnar.

Í úttekt gæðaráðsins koma fram ýmis tækifæri til umbóta. Mælt er með því að forsvarsmenn námsleiðarinnar tryggi að aðgerðaáætlun sé fylgt og að rýnd séu lærdómsviðmið og innihald námsleiðarinnar svo betur megi samstilla fræðilegan og verklegan undirbúning fyrir lögreglustörf. Þá er mælt með því að gildi og skilvirkni lota séu endurskoðuð með það fyrir augum að nemendur sjái hag sinni í að mæta í eigin persónu í loturnar. Í því samhengi er bent á mikilvægi félags- og teymishæfni í lögreglustarfinu og því ætti að nýta þau tækifæri sem gefast til að þjálfa slíka hæfni meðan á lotum stendur á sem skilvirkastan hátt.

Gæðaráð íslenskra háskóla starfar fyrir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og hefur það m.a. að markmiði að bæta kennslu og rannsóknir á vettvangi íslenskra háskóla, tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu ráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt og tryggja samkeppnishæfni íslenskra háskóla á alþjóðavettvangi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta