Yfirlýsing forsætisráðherra á Alþingi um stríðið í Úkraínu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag á Alþingi sérstaka yfirlýsingu af því tilefni að á morgun, 24. febrúar, verður ár liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu.
Í yfirlýsingunni ítrekaði forsætisráðherra stuðning Íslendinga við Úkraínu, fordæmdi innrásarstríð Rússlands harðlega og kallaði eftir réttlátum friði í Úkraínu. Stríðið sé skýrt brot á alþjóðalögum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
„Stríðið í Úkraínu sýnir okkur svo áþreifanlega að friður er forsenda allra framfara. Ef ekki ríkir friður þýðir lítið að tala um framfaramál, sjálfbærni eða jöfnuð. En friðurinn þarf líka að vera réttlátur. Friður má ekki byggjast á kúgun og yfirgangi þjóða yfir öðrum þjóðum,“ sagði forsætisráðherra.
Þá fór forsætisráðherra yfir stuðning Íslands við Úkraínu. „Íslensk stjórnvöld veittu í fyrra rúmlega 2,1 milljarð kr. í mannúðar- og efnahagsstuðning og stuðning við grunninnviði og varnir landsins, og við munum halda áfram á sömu braut. Ísland stendur með mannréttindum og alþjóðalögum. Það þarf að draga þá sem eru ábyrgir fyrir stríðsglæpum til ábyrgðar og við munum leggja á það áherslu í formennsku okkar í Evrópuráðinu.“