Ný þjónustustofnun á sviði menntamála til umsagnar í Samráðsgátt
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur lagt frumvarp um nýja þjónustustofnun á sviði menntamála til umsagnar í Samráðsgátt. Markmiðið með þessum breytingum er að svara ákalli um aukinn stuðning við fjölbreytt verkefni skólasamfélagsins. Nýja stofnunin mun taka yfir hluta verkefna Menntamálastofnunar, sem verður lögð niður. Hún verður þjónustumiðuð stofnun sem mun m.a. sinna verkefnum á grundvelli laga um heildstæða skólaþjónustu sem eru í undirbúningi. Frestur til umsagna er til 10. mars 2023.
Hlutverk nýrrar stofnunar er að styðja og efla menntun, skóla- og frístundastarf um allt land. Áhersla er á að þjónusta skóla, starfsfólk skóla, börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra sem og að samræma skólaþjónustu á landsvísu og milli skólastiga.
„Hvorki er til staðar heildarlöggjöf um skólaþjónustu né miðlæg stofnun með það hlutverk að framkvæma og samhæfa þjónustuna. Með nýrri þjónustustofnun og löggjöf sem er í undirbúningi svörum við ákalli um meiri stuðning og leiðsögn,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Ný stofnun verður einnig öflugur bakhjarl við innleiðingu á breytingum samkvæmt menntastefnu og mun gegna lykilhlutverki í að tryggja yfirsýn til samþættingar þjónustu þvert á kerfi.“
Stofnuninni verður falið að efla skólaþróun um allt land og sjá skólum fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum sem svara kalli tímans. Markmiðið er að styðja við skólastarf og skólaþjónustu með gæðaviðmiðum og matstækjum til skimana á einstaklingum eða hópum og veita faglegan stuðning og leiðsögn við umbótastarf í skólum. Þá á ný stofnun að byggja upp þekkingu og færni starfsfólks skóla með virkri og samræmdri starfsþróun. Starfsemin nær til leik-, grunn- og framhaldsskóla, auk frístundastarfs.
Ný stofnun fær einnig það hlutverk að sinna rannsóknum á sviði menntunar, skólastarfs og skólaþjónustu. Stjórnvöld munu njóta ráðgjafar og aðstoðar hennar við stefnumótun og innleiðingu umbóta í menntakerfinu með farsæld barna að leiðarljósi.
Í frumvarpinu felst að Menntamálastofnun verði lögð niður og hluti verkefna hennar flutt til nýrrar stofnunar. Önnur verkefni, einkum leyfisveitingar, söfnun, greining og miðlun upplýsinga og eftirlit með skólastarfi verði flutt til mennta- og barnamálaráðuneytisins, fyrst um sinn.
Ný stofnun hefur ekki hlotið nafn. Fyrirhugað er að halda nafnasamkeppni í tengslum við þjóðfund um framtíð skólaþjónustu sem haldinn verður 6. mars nk. Ráðgert er að ný stofnun hefji störf á þessu ári.