Vel hefur gengið að aðstoða flóttafólk frá Úkraínu við að komast út á íslenskan vinnumarkað
Vel hefur gengið að aðstoða flóttafólk frá Úkraínu við að komast út á vinnumarkað hér á landi. Yfir 800 flóttamenn frá Úkraínu hafa fengið atvinnuleyfi hér á landi frá innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar 2022. Í dag er eitt ár liðið frá innrásinni.
Fyrsta flóttafólkið frá Úkraínu kom hingað til lands strax í lok febrúar 2022 og í mars sama ár flúðu vel yfir 500 manns frá Úkraínu til Íslands. Síðan þá hafa að meðaltali komið um 200 flóttamenn frá Úkraínu hingað til lands í hverjum mánuði. Fólkið fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Af þeim tæplega 2.600 flóttamönnum frá Úkraínu sem Ísland hefur tekið á móti frá innrás Rússlands eru um 1.900 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára. Miðað við útgefin atvinnuleyfi má ætla að ríflega 42% þeirra séu þegar komin með vinnu. Hluti hópsins er þó tiltölulega nýkominn til landsins og taka þarf tillit til þess að ákveðinn tíma tekur að koma sér fyrir og ná áttum áður en atvinnuþátttaka getur hafist.
Flest atvinnuleyfin eru útgefin fyrir störf við ræstingar og í þvottahúsum. Þar á eftir fylgir þjónustufólk á heimilum og á veitingahúsum, verkafólk í iðnaði og fiskvinnslu, verkafólk í byggingariðnaði og afgreiðslu- og sölufólk.
„Við sjáum það að flest fólk frá Úkraínu sem kemur til okkar vill fara út á vinnumarkaðinn sem fyrst og leggur mikið á sig til að finna vinnu. Mörg þeirra eru til í að ganga í flest störf, þrátt fyrir hátt menntunarstig og starfsreynslu. Fólkið segist almennt fá jákvætt viðmót hér á landi og upplifa sig velkomið og öruggt,“ segir Guðlaug Hrönn Pétursdóttir, deildarstjóri flóttamannadeildar hjá Vinnumálastofnun. Deildin veitir flóttafólki sértæka þjónustu við atvinnuleit.
„Við sjáum líka að atvinnurekendur eru jákvæðir og ánægðir með starfsfólkið. Það er duglegt í vinnu, líkt og á við um flóttamenn sem hingað koma frá öðrum löndum,“ segir Guðlaug enn fremur.
Hjá flóttamannadeildinni fær fólk aðstoð við að fá vinnu, auk þess sem boðið er upp á samfélagsfræðslu, íslenskukennslu og önnur virkniúrræði. Á árinu 2022 fengu um 395 einstaklingar frá Úkraínu samfélagsfræðslu á vegum Vinnumálastofnunar og 419 fengu íslenskukennslu.