Áskoranir í orkuskiptum í samgöngum ræddar á ráðherrafundi í Stokkhólmi
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók þátt í óformlegum ráðherraráðsfundi samgöngu- og orkumálaráðherra ESB um orkuskipti í samgöngum sem var haldinn í Stokkhólmi í gær og í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og nýsköpunarráðherra sótti jafnframt fundinn. Þátttakendur ræddu ýmsar áskoranir í orkuskiptum í þremur fundarlotum. Ein þeirra var sameiginlegur fundur samgöngu- og orkumálaráðherra þar sem fjallað var um áskoranir við að tryggja nægjanlega græna orku til orkuskipta og fyrir hagkvæma og skilvirka framleiðslu á vetni og rafeldsneyti.
Á fundi samgönguráðherra komu fram áhyggjur margra um að það hallaði á samkeppnisstöðu ESB- og EES-ríkja í grænum lausnum sérstaklega vegna örvunaraðgerða stórra ríkja utan Evrópu í formi ríkisstyrkja og skattaafslátta til að styðja við orkuskipti. Mikilvægt væri að Evrópa héldi samkeppnisforskoti í grænum tæknilausnum. Í þessu sambandi ræddi innviðaráðherra áhrif viðskiptakerfis með losunarheimildir á samkeppnistöðu tengiflugvallarins á Íslandi og íbúa fjarlægustu svæða Evrópu. Gjaldtakan setti Evrópu beinlínis í lakari stöðu á alþjóðlegum samkeppnismarkaði, sérstaklega í ljósi þess að önnur ríki væru að styrkja grænar lausnir. Það væri vont fyrirkomulag að samgönguyfirvöld bæru ekki ábyrgð eða hefðu beina aðkomu að Evrópugerðum um orkuskipti sem hefðu mikil áhrif á samgöngur líkt og ETS-viðskiptakerfið.
Innviðaráðherra ræddi einnig góðan árangur við rafvæðingu fólksbílaflotans og uppbyggingu hleðslustöðva á Íslandi. Á hinn bóginn væru orkuskipti skammt á veg komin hvað varðar þungflutningabifreiðar. Í þeim efnum ætti eftir að yfirstíga margar áskoranir til þess að ná fram hagkvæmum lausnum s.s. með samkeppnishæfri framleiðslu á grænni orku, vetni eða rafeldsneyti, uppbyggingu orkustöðva og tæknilausnum.
Á sameiginlegum fundi samgönguráðherra og orkuráðherra kom fram að miklar áskoranir væru fólgnar í því að tryggja næga græna orku og við framleiðslu á vetni og vetnis afleiddum orkugjöfum s.s. ammoníak fyrir orkuskipti í samgöngum. Auk þess væri það áskorun að Bandaríkin og Kína hefðu ákveðið að niðurgreiða framleiðslu á grænu vetni, 3 dollara á kg. Þetta setti Evrópu í lakari stöðu við framþróun flutningatækni fyrir flutninga yfir lengri vegalengdir og á alþjóðavísu. Þá kom einnig fram mikilvægi þess að einfalda regluverk um leyfisveitingar á sviði orkuvinnslu og gera það skilvirkara.