Hoppa yfir valmynd
1. mars 2023 Forsætisráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir átti tvíhliða fund með Mette Frederiksen

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, áttu tvíhliða fund í Kaupmannahöfn í dag. Leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík, sumarfundur norrænu forsætisráðherranna í Vestmannaeyjum, Evrópumál og málefni Úkraínu voru meðal umræðuefna.

Forsætisráðherra gerði grein fyrir undirbúningi og innihaldi leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fram fer í Reykjavík 16. – 17. maí nk. Ráðherrarnir ræddu einnig sumarfund norrænu forsætisráðherranna sem haldinn verður í Vestmannaeyjum í júní. Þema fundarins í ár er viðnámsþróttur og norrænt samstarf en staðsetning fundarins var valin í tilefni þess að í ár eru 50 ár liðin frá lokum eldgossins í Vestmannaeyjum.

Þá ræddu forsætisráðherrarnir samstarf innan Evrópu og málefni Úkraínu og stöðuna ári eftir að innrás Rússa hófst.

Fyrr í dag flutti forsætisráðherra opnunarávarp á ráðstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilbrigðismál og velsældarhagkerfi. Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra m.a. um mikilvægi þess að nota aðra mælikvarða en efnahagslega til að mæla velsæld. Þannig hefðu íslensk stjórnvöld mótað velsældarvísa til að mæla hagsæld og lífsgæði á Íslandi. Þá ræddi forsætisráðherra einnig um þátttöku Íslands í WEGo samstarfinu sem er samstarf ríkja sem leggja áherslu á velsældarhagkerfið.

Á ráðstefnunni átti forsætisráðherra einnig fundi með Hans Kluge, yfirmanni svæðisskrifstofu WHO í Evrópu, Eluned Morgan, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Wales, og Romaniu Boarini, forstöðukonu WISE, miðstöðvar á vegum OECD.

 

  • Katrín Jakobsdóttir átti tvíhliða fund með Mette Frederiksen - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta