Styrkir Norræna félagið vegna Nordjobb
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Norræna félaginu fimm milljóna króna styrk vegna Nordjobb. Nordjobb er samnorrænt verkefni sem stuðlar að þátttöku norrænna ungmenna á vinnumarkaði á Norðurlöndunum, samhliða því að efla þekkingu þeirra á norrænum tungumálum og menningu.
Nordjobb hefur allt frá árinu 1985 aðstoðað ungmenni við að finna störf á öðrum Norðurlöndum, auk þess að bjóða upp á tómstundadagskrá og upplýsingaþjónustu. Þátttakendur fá starfsreynslu og jafnframt tækifæri til að kynnast einu af nágrannalöndum sínum. Hægt er að sækja um Nordjobb allt árið og fjölbreytt störf eru í boði.