Fjölsóttur þjóðfundur um framtíð skólaþjónustu
Á fimmta hundrað þátttakendur mættu í Hörpu í dag til að taka þátt í vinnu við að móta fyrirkomulag skólaþjónustu hérlendis á þjóðfundi mennta- og barnamálaráðherra um framtíð skólaþjónustu. Fundurinn er liður í samráðsferli stjórnvalda við gerð nýrra heildarlaga um skólaþjónustu á Íslandi.
Hvað er skólaþjónusta?
Skólaþjónusta hefur það hlutverk m.a. að efla skóla sem faglegar stofnanir og veita fjölbreytta þjónustu til að styðja við farsæla skólagöngu barna og gæðastarf í skólum. Markmið nýrra laga er að jafna aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að skólaþjónustu þar sem þrepaskiptur stuðningur liggur til grundvallar og tryggja að stuðningur, ráðgjöf og leiðsögn sé í samræmi við þarfir barna og ungmenna óháð búsetu og skólastigi.
„Ef blóm nær ekki að blómstra þá lögum við umhverfið sem blómið vex í – ekki blómið,“ sagði Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Lagst á eitt við að finna lausnir
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti í haust áform sín um að leggja fram ný heildarlög um skólaþjónustu. Haldin var ráðstefna um áformin og samráð í húsfylli á Grand Hótel Reykjavík í haust. Undanfarna mánuði hefur staðið yfir umfangsmikið samráð við fjölbreyttan hóp haghafa þar sem m.a. um 300 manns tóku þátt á rafrænum samráðsfundum í desembermánuði. Eins hafa mörg hundruð börn og ungmenni vítt og breitt um landið tekið þátt í ferlinu í gegnum skólaheimsóknir, netkannanir og samráð við ungmennaráð og nemendafélög.
„Skólarnir eru nefnilega sá vettvangur þar sem öll börn eru saman komin – í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum – flesta daga vikunnar stærstan hluta ársins. Þar eru tækifærin til að teygja sig til barna, efla þau og styrkja, og veita þeim nauðsynlegan stuðning svo þau nái að fóta sig á þessum vegi til menntunar og farsældar,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í opnunarávarpi sínu.
Niðurstöður fyrsta hluta samráðsferlisins sýna að töluverður samhljómur ríkir meðal ólíkra haghafa um áherslur og heildarsýn á skólaþjónustu á Íslandi en þó standa eftir ýmis mikilvæg úrlausnarefni.
Unnið var að þessum lausnum í hópvinnu á þjóðfundinum. Þátttakendur í hópvinnu ræddu um gæði menntunar, umfang miðstýringar og þjónustusvæða, skiptingu verkefna milli ríkis, sveitarfélaga og skóla, aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga og fagstétta, þjónustu á fámennum svæðum og við börn með fjölþættar þarfir, skil milli heilbrigðisþjónustu og skólaþjónustu, fyrirkomulag uppeldisráðgjafar og stuðning við foreldra.
Framtíð skólaþjónustu
Mennta- og barnamálaráðuneytið mun í framhaldinu vinna úr niðurstöðum þjóðfundar og áframhaldandi samráðs í vor við gerð frumvarps til laga um heildstæða skólaþjónustu. Ráðuneytið þakkar þeim fjölmörgum sem hafa tekið þátt í vinnunni fram til þessa fyrir þeirra framlag.
Nýrri þjónustustofnun á sviði menntamála verður falið að sinna verkefnum á grundvelli þessara laga. Frumvarp um þjónustustofnunina hefur verið lagt til umsagnar í Samráðsgátt og er frestur til umsagna til 10. mars 2023.
Uppfært 6.3.23 kl. 19:32