Hoppa yfir valmynd
7. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Aukin áhersla lögð á verndun og sjálfbæra nýtingu hafsvæða í íslenskri lögsögu

Úthafsáttmáli Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu alþjóðlegra hafsvæða markar tímamót og samræmist þeim markmiðum sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér um verndun viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa í landhelgi Íslands. Fulltrúi matvælaráðuneytisins tók þátt í undirbúningi og gerð sáttmálans fyrir hönd Íslands.

Sáttmálinn var samþykktur í New York sl. laugardag eftir tíu ára samningaferli. Verndun líffræðilegrar fjölbreytni er ein af megináherslum sáttmálans.

Í sáttmálanum eru sett fram markmið um verndun alþjóðlegra hafsvæða. Við mótun framtíðarstefnu Íslands er einnig gert ráð fyrir að hluti íslenskra hafsvæða verði innan verndarsvæða eða njóti annarrar svæðisbundinnar verndar líkt og kveðið er á um í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að.

Eitt fyrsta skrefið í átt til þeirra markmiða er reglugerð um verndun viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa við Ísland sem matvælaráðherra staðfesti nýlega en ljóst er að endurskoðun á verndun og nýtingu hafsins er þörf, ásamt staðbundnum og skilvirkum verndaraðgerðum til að Ísland nái markmiðum um verndun hafsvæða.

Ákvæði sáttmálans munu aðeins gilda þar sem valdheimildum annarra alþjóðastofnana sleppir. Þau munu til dæmis ekki gilda um fiskveiðistjórnun á Norðaustur-Atlantshafi, þar sem til staðar er svæðisbundin fiskveiðistjórnunarstofnun sem stýrir úthafsveiðum.

Í sáttmálanum er lögð áhersla á skýr verndarmarkmið og að skilgreind verði sú eftirfylgni sem þarf til að verndun verði árangursrík. Tryggja þarf að verndun hafsvæða eigi sér stoð á grundvelli laga, sé unnin á vísindalegum grunni og gerð í samráði við haghafa.

„Meginmarkmið verndunar íslenskra hafsvæða er að tryggja líffræðilega fjölbreytni ásamt sjálfbærri nýtingu auðlinda og samþykkt Úthafssamningsins er mikilvægt skref í þeirri vegferð”, sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Auðlindir sjávar eru okkur Íslendingum ekki einungis efnahagslega mikilvægar, okkar ábyrgð er líka að skila komandi kynslóðum sjálfbærum og heilbrigðum hafsvæðum“.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta