Vegna umfjöllunar um málefni Lindarhvols
Að gefnu tilefni vegna fjölmiðlaumfjöllunar og þingfyrirspurna þar um eru hér áréttuð nokkur atriði til að halda til haga staðreyndum varðandi félagið Lindarhvol.
Um félagið Lindarhvol og stofnun þess
Í tengslum við nauðasamninga gömlu bankanna og undanþágu þeirra frá gjaldeyrishöftum fór fram uppgjör við stjórnvöld undir árslok 2015 sem fól í sér að slitabúin lögðu fram svonefnd stöðugleikaframlög sem runnu í ríkissjóð. Þau samanstóðu af lausu fé, framsalseignum, skilyrtum fjársópseignum, eignarhluta í Íslandsbanka og skuldabréf með veði í Arion banka, alls að andvirði 384 ma.kr.
Með lagasetningu vegna viðtöku stöðugleikaframlaga var fjármála- og efnahagsráðherra falið að setja á fót félag til að annast um eftir atvikum umsýslu, fullnustu eða sölu hluta þessara eigna, svonefndar framsalseignir að andvirði 60 ma.kr. Einnig hafði félagið eftirlit með svokölluðum skilyrtum fjársópseignum sem voru í umsýslu slitabúa. Á þessum forsendum var félagið Lindarhvoll stofnað með lögum. Í samræmi við lagaákvæðin frá Alþingi gerði ráðherra samning við Lindarhvol með það að markmiði að félagið hámarkaði verðmæti eignanna og lágmarkaði kostnað við umsýslu þeirra á sem skemmstum tíma, í því skyni að auðvelda niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og lækka fjármagnskostnað sem leiddi til bætts lánshæfis ríkissjóðs.
Gagnsæi um starfsemi Lindarhvols
Frá upphafi var lögð áhersla á gagnsæi um störf Lindarhvols og upplýsingar birtar um kaupendur eigna sem Lindarhvoll sá um að selja ásamt öðrum upplýsingum um söluferlin. Þær voru birtar jafnóðum á vefsvæði Lindarhvols og í greinargerðum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi Alþingi og birti á vef sínum. Slíkt yfirlit er sömuleiðis birt hér neðst.
Eftirlit Ríkisendurskoðunar með Lindarhvoli
Í lögum nr. 24/2016 er kveðið á um að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með framkvæmd samnings milli ráðherra og Lindarhvols ehf. um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaeigna. Markmið með skýrslu Ríkisendurskoðunar sem skilað var til Alþingis og birt var árið 2020 var að kanna framkvæmd samningsins.
Komið hefur fram kvörtun frá einum bjóðanda, Frigus II ehf., í tengslum við eina sölu á vegum Lindarhvols. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem var ítarlega farið yfir þá tilteknu sölumeðferð, var ekki tekið undir þær athugasemdir.
Vinnuskjal setts ríkisendurskoðanda
Vegna vanhæfis fyrrum ríkisendurskoðanda í málinu var tímabundið settur ríkisendurskoðandi til að annast eftirlit með Lindarhvoli. Þegar nýr ríkisendurskoðandi tók til starfa tók hann við verkefninu eðli máls samkvæmt.
Hinn tímabundið setti ríkisendurskoðandi vann vinnuskjal sem nýr ríkisendurskoðandi tók við og nýtti að hluta í endanlega skýrslu sína.
Um birtingu vinnuskjala
Almennt er óheimilt að gera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda opinber sem falla undir þagnarskyldu 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ársreikninga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur úrskurðað um þetta atriði mörgum sinnum, þ.á.m. eftir að skýrslu Ríkisendurskoðunar var skilað árið 2020. Sjá nánar meðal annars úrskurði nefndarinnar nr. 826/2019, 827/2019, 967/2021, 978/2021 og 1041/2021.
Ráðuneytinu er skylt að hlíta úrskurðum nefndarinnar og þar með óheimilt að birta vinnuskjalið. Vilji eða afstaða ráðherra og ráðuneytisins skiptir ekki máli í því samhengi.
Ríkisendurskoðun hefur á vef sínum birt sjónarmið embættisins vegna málefna Lindarhvols.
Yfirlit yfir kaupendur eigna
Hér að neðan er samandregið yfirlit yfir seldar eignir í umsýslu Lindarhvols og kaupendur þeirra. Ítrekað er að upplýsingar þar um voru ávallt birtar jafnóðum á vefsvæði Lindarhvols og að auki e.a. í greinargerðum til Alþingis og öðrum gögnum.
Eign |
Verð |
Tími |
Fyrirkomulag sölu |
Kaupendur |
Óverðtryggð ríkisbréf í þremur flokkum |
1,9 ma.kr. |
maí 2016 |
Sala á markaði í umsjá Lánamála ríkisins. |
Útboðsfyrirkomulag gegnum aðalmiðlara ríkisskuldabréfa sem annast einnig tilboðsgerð fyrir fjárfesta. (*) |
Skuldabréf án ríkisábyrgða í fjórum flokkum |
2,4 ma.kr. |
maí 2016 |
Sala á markaði í umsjá Lánamála ríkisins. |
Útboðsfyrirkomulag þar sem fjármálafyrirtæki önnuðust tilboðsgerð fyrir fjárfesta. (*) |
Eignarhlutur í Reitum fasteignafélagi hf. |
3,9 ma.kr. |
ágúst 2016 |
Skráð félag. Sala með útboði í umsjá Landsbankans. |
(*) |
Eignarhlutur í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. |
2,8 ma.kr. |
september 2016 |
Skráð félag. Sala með útboði í umsjá Landsbankans. |
(*) |
Eignarhlutur í Símanum hf. |
0,27 ma.kr. |
ágúst 2016 |
Skráð félag. Sala á almennum hlutabréfamarkaði í umsjá Landsbankans. |
(**) |
Eignarhlutur í Eimskipum hf. |
0,38 ma.kr. |
ágúst 2016 |
Skráð félag. Sala á almennum hlutabréfamarkaði í umsjá Landsbankans. |
(**) |
Eignarhlutur í Vörukaupum ehf. |
0,13 ma.kr. |
október 2016 |
Opið söluferli í umsjá Lindarhvols. |
Xyzeta ehf. |
Kröfur á hendur Glitni Holdco ehf. |
0,5 ma.kr. |
nóvember 2016 |
Opið söluferli í umsjá Lindarhvols. |
SC Lowy Primary Investments Ltd. |
Kröfur á hendur Klakka ehf. |
0,5 ma.kr. |
nóvember 2016 |
Opið söluferli í umsjá Lindarhvols. |
BLM fjárfestingar ehf. |
Hlutafé í Lyfju hf. |
4,4 ma.kr. |
febrúar 2018 |
Opið söluferli í umsjá Kviku banka |
SID ehf. |
Samtals |
17 ma.kr. |
|
|
|
(*) Ríkisskuldabréf og önnur skuldabréf seld með útboðsfyrirkomulagi á vegum Lánamála ríkisins. Einnig voru eignarhlutir í Reitum og Sjóvá seldir með tilboðsfyrirkomulagi í opnu útboði í umsjá Landsbankans. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um kaupendur í þeim útboðum.
(**) Með sölu á markaði eru kaupendur ekki samþykktir af seljanda. Þess í stað eru kaupendur og seljendur tengdir saman af verðbréfamiðstöð og er það fyrirkomulag til þess fallið að stuðla að eðlilegri verðlagningu. Seljandi hefur þannig ekki beina aðkomu að því hver kaupir viðkomandi eign og verðbréfamiðstöðin tryggir að skilyrði séu uppfyllt og viðskipti séu örugg. Verð ræðst af framboði og eftirspurn og er markaðsverð.
*Tilkynningin var uppfærð 18. apríl 2023.