Úttektir á íslenskukennslu fyrir útlendinga
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur ákveðið að styðja við þrjár rannsóknir og úttektir á íslenskukennslu fyrir útlendinga, auk þess að láta framkvæma kerfisbundna greiningu á innlendum og alþjóðlegum ritrýndum rannsóknum sem varða framhaldsfræðslu. Á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis er nú unnið að heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og lögum um framhaldsfræðslu og eru verkefnin liður í þeirri vegferð.
Framhaldsfræðslu er ætlað að veita fólki með stutta skólagöngu ný tækifæri til náms og starfa. Eitt af því sem fram fer undir hatti framhaldsfræðslunnar er íslenskukennsla fyrir útlendinga. Vegna mikillar fjölgunar innflytjenda og flóttafólks hér á landi þykir mikilvægt að endurskoða íslenskukennslu sem fram fer utan formlega skólakerfisins og er miðuð að fullorðnu fólki með annað móðurmál en íslensku.
Sömuleiðis þykir mikilvægt að greina vandlega stöðuna varðandi framhaldsfræðslu og nota niðurstöður rannsókna til umbóta í málaflokknum.
Verkefnin sem ráðist verður í eru eftirfarandi:
Framhaldsrannsókn á viðhorfum innflytjenda til íslenskunámskeiða
Háskólinn á Akureyri mun sjá um að framkvæma framhaldsrannsókn í tengslum við rannsókn sem skólinn stóð fyrir 2018-2019 á viðhorfum innflytjenda til íslenskunámskeiða. Leitað verður eftir viðhorfum fullorðinna innflytjenda til íslenskunámskeiða og annarra þeirra atriða sem þeir telja að geti haft áhrif á námsþátttöku þeirra, svo sem hvata til íslenskunáms, aðgengi og/eða hindranir.
Heildarúttekt á framkvæmd þjónustukannana hjá viðurkenndum fræðsluaðilum
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands mun taka út gæðakerfi fræðsluaðila sem sjá um íslenskukennslu hér á landi. Um er að ræða viðurkennda fræðsluaðila sem fá styrki til að kenna íslensku í gegnum þar til gerðan sjóð hjá Rannís. Verkefni Félagsvísindastofnunar verður að greina hvernig rödd innflytjenda heyrist í umbóta- og matsstarfi fræðsluaðilanna.
Heildarúttekt á þjónustusamningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins
Menntavísindastofnun mun ráðast í heildarúttekt á þjónustusamningi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og meta hvernig til hefur tekist.
Eitt af hlutverkum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er að semja námskrár og námslýsingar fyrir fólk með stutta skólagöngu, þar með talið innflytjendur, og stuðla að auknu gæðastarfi fræðsluaðila. Þá er Fræðslumiðstöðin umsýsluaðili fyrir Fræðslusjóð sem er eitt meginstjórntæki framhaldsfræðslunnar og meðal annars ætlað að bjóða upp á námsúrræði fyrir innflytjendur.
Kerfisbundin greining á innlendum og alþjóðlegum ritrýndum rannsóknum
Menntavísindastofnun Háskóla Íslands mun ráðast í kerfisbundna greiningu á innlendum og erlendum rannsóknum er varða nám og þjálfunarúrræði fullorðinna sem tilheyra markhópi framhaldsfræðslu. Auk innflytjenda er um að ræða fullorðið fólk með stutta skólagöngu, fatlað fólk, fólk sem býr við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku, og ungt fólk sem hvorki er í námi, þjálfun eða starfi.
Ætlunin er að greina og taka saman helstu rannsóknarniðurstöður úr íslenskum og erlendum rannsóknum þannig að þær geti varpað ljósi á stöðu og álitamál sem bregðast þarf við og þannig nýst til umbóta í málaflokknum.
Niðurstöður liggja fyrir snemmsumars
Niðurstöður úr verkefnunum er ætlað að liggja fyrir í maí og júní nk. svo þær nýtist við áðurnefnda heildarendurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu og heildarstefnumótun í málaflokknum.
Sjá einnig frétt frá því í janúar 2023: Samstarfshópur um framhaldsfræðslu hefur störf