Heimsótti íslenska básinn á ITB ferðasýningunni í Berlín
Menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti ITB hátíðina í Berlín.
Ein stærsta ferðakaupstefna heims, ITB, fór fram í síðustu viku í Berlín. Um 60 fulltrúar á vegum 27 íslenskra fyrirtækja, Íslandsstofu, Austurbrú og Markaðsstofu Norðurlands tóku þátt í ár. ITB er einn helsti vettvangur ráðstefna, funda og fræðslu um þróun og nýjungar í ferðaþjónustu á heimsvísu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti íslenska básinn og tók þátt í fjölmiðlakynningu sem Íslandsstofa efndi til fyrir þýska blaðamenn í samstarfi við sendiráð Íslands í Berlín.
„Það var frábært að sjá hversu mörg íslensk ferðaþjónustufyrirtæki tóku þátt í sýningunni í ár. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu að styrkja enn frekar stöðu sína á ferðamarkaði,“ segir ráðherra um sýninguna.
Á ITB býðst fyrirtækjum í ferðaþjónustu tækifæri til að kynna sig fyrir um 90 þúsund fagaðilum víða af úr heiminum og koma á viðskiptasamböndum. Ísland var eins og síðustu ár með aðstöðu á sameiginlegu sýningarsvæði Norðurlandanna.
Heimsóknin var hluti af ferð ráðherra til Berlínar þar sem hún fundaði meðal annars með Claudiu Roth menningarmálaráðherra Þýskalands.