Hoppa yfir valmynd
15. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og Úkraínu

Þórdís Kolbrún og Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu. - mynd
Í tilefni af heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Úkraínu í gær gáfu þau Þórdís Kolbrún og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, út sameiginlega yfirlýsingu. Yfirlýsinguna gefur Þórdís Kolbrún einnig sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins.

Í yfirlýsingunni kalla þau eftir alþjóðlegum lagalegum viðbrögðum við tilefnislausu og ólöglegu árásarstríði Rússa.

„Þjóðarmorð, stríðsglæpir, glæpir gegn mannkyni, árásarglæpir, kynferðisofbeldi og önnur gróf brot á mannréttindum og alþjóðlegum mannúðarlögum grafa undan sjálfri samfélagsgerðinni. Refsileysi styrkir gerendur, þaggar niður í fórnarlömbum og hefur neikvæð áhrif á friðarhorfur og virðingu fyrir mannréttindum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni. Ráðherrarnir árétta jafnframt stuðning við starf úkraínskra saksóknara og löggæslustofnana við að skjalfesta og rannsaka alþjóðlega glæpi í samvinnu við alþjóðasamfélagið.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að tryggja verði ábyrgðarskyldu vegna árásarglæpa með stofnun sérstaks dómstóls um málið. Þar er einnig undirstrikað mikilvægi þess að Úkraína og Ísland haldi áfram að vinna saman, bæði tvíhliða og á vettvangi alþjóðegs kjarnahóps um stofnun sérstaks dómstóls en Ísland er meðal á fjórða tugs ríkja sem tilkynnt hafa um aðild sína að hópnum.

Í yfirlýsingunni segir: „Rússum ber skylda til að bæta fyrir allan skaða, manntjón og meiðsl á fólki sem hlotist af ólöglegum athöfnum þeirra. Sem fyrsta skrefið að því að tryggja alhliða skaðabætur mætti stofna alþjóðlegra tjónaskrá á vettvangi Evrópuráðsins. Við fögnum þeim skrefum sem þegar hafa verið tekin til að þróa slíka tjónaskrá.“

Þórdís Kolbrún segir að það sé mikilvægt fyrir Ísland að beita sér á vettvangi alþjóðastofnana fyrir málstaðnum. „Okkur er falin formennska í ráðherraráði Evrópuráðsins og tökum alvarlega þá ábyrgð sem felst í því á þeim umbrotatímum sem nú eru uppi. Þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi eigum við Íslendingar að leggja metnað okkar í að standa skil á okkar hlutverki af sóma og með fagmennsku í þágu alþjóðakerfisins. Það er uppörvandi og hvetjandi að finna það hjá starfsbróður mínum í Úkraínu að það getur munað um framlag Íslands. Í mínum huga felur það í sér skyldu til þess að við látum okkar ekki eftir liggja þar sem við getum gagnast réttum málstað,“ bætir hún við.

Á 4. leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík 16.-17. maí verður stuðningur við Úkraínu og ábyrgðarskylda eitt helsta umfjöllunarefnið.

Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta