Fyrsta áætlunin um framkvæmd lýðheilsustefnu birt til umsagnar
Birt hafa verið til umsagnar drög að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára. Áætlunin verður lögð fyrir Alþingi til umræðu. Í henni er forgangsraðað til næstu fimm ára stefnumarkmiðum þingsályktunar um lýðheilsustefnu sem samþykkt var á Alþingi 2021. Umsagnarfrestur er til 28. mars næstkomandi.
Ályktun Alþingis felur í sér að leiðarljós lýðheilsustefnu fram til ársins 2030 verði heilsuefling og forvarnir þar sem markmiðið er að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er. Stefnt skal að því að lýðheilsustarf sé markvisst og einkennist meðal annars af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu og annarra hagaðila, s.s. sveitarfélaga.
Í lok júní 2022 skipaði heilbrigðisráðherra verkefnahóp til að vinna drög að aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu sem hvetji fólk til að huga að eigin heilsu. Hópurinn kallaði fjölmarga aðila sem sinna lýðheilsustarfi á sinn fund og kynnti sér ýmis verkefni sem hafa áhrif á lýðheilsu á einn eða annan hátt. Helstu niðurstöður hópsins voru kynntar á heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu í nóvember 2022. Aðgerðaáætlunin sem nú er birt til umsagnar byggist á vinnu verkefnahópsins, tillögum sem fram komu á heilbrigðisþinginu og stefnum og aðgerðaáætlunum heilbrigðisráðuneytisins sem varða heilsu og forvarnir, s.s. um heilsueflingu aldraðra, krabbameinsáætlun, geðheilbrigðisstefnu og stafræna heilbrigðisþjónustu. Uppbygging aðgerðaáætlunar lýðheilsustefnu kallast á lykilviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem felast m.a. í forystu til árangurs, réttri þjónustu á réttum stað, fólkið í forgrunni, virkum notendum, gæði og skilvirk þjónustukaup.
Helstu aðgerðir samkvæmt áætluninni
Í áætluninni eru skilgreindar 11 aðgerðir í þágu lýðheilsu sem unnið verður að á næstu fimm árum. Hver þeirra er brotin niður í fleiri verkefni. Sem dæmi um aðgerðir og verkefni má nefna:
- Gildandi löggjöf sem snýr að lýðheilsu metin og greind þörf á sérstökum lögum um lýðheilsu.
- Lýðheilsumat verði hlut af sjálfbærnimati lagafrumvarpa og gátlistar þróaðir
- Gerður verði sáttmáli um bætta lýðheilsu og öfluga samvinnu í því skyni
- Áframhaldandi skipulagður stuðningur við heilsueflandi verkefni í heimabyggð
- Vitundarvakning með áherslu á að efla heilsulæsi almennings
- Rafræn upplýsingamiðlun og þróun rafrænna lausna í þágu heilsueflingar og forvarna
- Efling lýðheilsusjóðs
- Þróun lýðheilsuvísa og birtingar þeirra – lýðheilsuvakt sett á fót
- Aukin áhersla á heilsueflingu eldra fólks í samstarfi ríkis og sveitarfélaga
- Endurmat krabbameinsáætlunar - aðgerðum hrint í framkvæmd
- Markviss gagnasöfnun um lýðheilsustarf og gagnreyndar aðferðir