Tveggja vikna þjóðarsorg í Malaví vegna mikilla náttúruhamfara
Lazarus Chakwera forseti Malaví lýsti yfir fjórtán daga þjóðarsorg frá og með gærdeginum í kjölfar mikillar eyðileggingar og manntjóns af völdum hitabeltisstormsins Freddy. Mikið úrhelli var enn í gær af völdum stormsins en veðrið var farið að ganga niður í morgun. Stjórnvöld í Malaví og Sameinuðu þjóðirnar sendu út neyðarkall til allra framlagsríkja í gær, meðal annars um aðstoð við leit og björgun fólks.
Að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Malaví stóru samhæfingarstjóri Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður almannavarna fyrir upplýsingafundi í gærkvöldi fyrir fulltrúa sendiráða þar sem kom fram að ástandið er mjög alvarlegt. Þá var staðfest að 324 hefðu látið lífið en jafnframt sagt að tölur yfir látna hækki hratt. Rúmlega 160 þúsund manns eru á vergangi og hafast við í skólum og bráðabirgðaskýlum en talið er að alls hafi um 377 þúsund manns orðið fyrir beinum áhrifum af hamförunum.
„Vitað er að fjöldi manns er í lífshættu í þremur héruðum í suðurhluta landsins en ekki hefur verið hægt að komast til þeirra þar sem vegir og brýr eru farnar í sundur. Malavísk yfirvöld sendu tvo báta til að komast að svæðunum en báðum bátunum hvolfdi. Blessunarlega fundust hermennirnir sem voru í bátunum hálfum sólarhring síðar á lífi. Ekki er hægt að notast við þyrlu sem stjórnvöld eiga þar sem skyggni er enn slæmt. Dæmi eru um að allt af fimmtán manns höfðust við í tré vegna flóðanna en þegar tréð féll fórust allir,“ segir Inga Dóra og bætir við að yfirmaður almannavarna segi það tímaspursmál hvort hægt verði að bjarga fólki sem hefst við á þessum svæðum.
Sameinuðu þjóðirnar fá sérfræðinga frá Suður Afríku með betri búnað til að bjarga fólki á næstu dögum. Inga Dóra segir að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, hafi leitað eftir stuðningi frá Íslandi til að aðstoða við að koma búnaðinum til landsins.
Líkt og áður hefur komið fram hófst kólerufaraldur fyrir ári í kjölfar fellibylsins Ana og breiddist faraldurinn fljótlega um land allt. Einungis á þessu ári hafa 160 manns látið lífið af völdum kóleru. Að sögn Ingu Dóru er ljóst að margir óttast að faraldurinn fari úr böndunum þar sem vatnsflaumur er enn mikill og vatns- og hreinlætisaðstöðu mjög ábótavant, meðal annars í þeim skólum og tímabundnu búðum þar sem tæplega hundrað þúsund manns hafast við.
Matvælaóöryggi var mikið á þeim svæðum sem fellibylurinn fór yfir þar sem þessi sömu héruð misstu alla uppskeru á síðasta ári vegna fyrri fellibylsins. Ísland lagði WFP til 500 þúsund Bandaríkjadali í nóvember tili að veita mánaðarleg framlög til þeirra sem bjuggu við mestan skort. „Nú hefur allt ræktarland farið undir vatn og engar líkur á uppskeru á næstu mánuðum. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur óskað eftir stuðningi frá Íslandi til að veita mataraðstoð til fólks á vergangi í tímabundnum búðum.
Að sögn Ingu Dóru er Alþjóðbankinn að endurskipuleggja verkefni sín í Malaví og mun beina framlögum til að bregðast við afleiðingum fellibylsins. Bankinn mun einnig veita umfangsmikinn matvælastuðning á næstu dögum ásamt því að sækjast eftir frekara fjármagni í gegnum Alþjóðaframfarastofnunina, IDA. Þá hefur Evrópusambandið, Þýskaland, Noregur og Belgía heita fjármagni til nauðstaddra.