Neyðarframlag vegna náttúruhamfara í Malaví
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að verja 500.000 Bandaríkjadölum (jafnvirði 71 milljóna króna) til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, vegna neyðarástands sem skapast hefur í Malaví af völdum hitabeltisstormsins Freddy. Framlagið nýtist stjórnvöldum í Malaví til björgunaraðgerða, við flutning á neyðargögnum og til þess að kaupa mat fyrir þær þúsundir sem reiða sig á matvælastuðning eftir hamfarirnar.
„Þegar óvænt neyð skapast í samstarfsríki okkar, eins og í þessu tilviki, kallar hún á skjót viðbrögð okkar. Við treystum fáum samstarfsaðilum betur en Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, til að koma framlaginu til þeirra sem þurfa mest á því að halda,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
„Við bregðumst við eins og hratt og mögulegt er við þessar aðstæður en hversu víðtækar afleiðingar þessar náttúruhamfarir hafa í Malaví kemur ekki í ljós fyrr en úttekt á því liggur fyrir. Það er ljóst að Malaví þarf verulegan stuðning,“ segir Paul Turnbull umdæmisstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, í Malaví. Hann þakkaði íslenskum stjórnvöldum fyrir skjót viðbrögð við skyndilegri neyð.
Sendiráð Íslands í Lilongwe hefur langa og góða reynslu af samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í Malaví en stofnunin er jafnframt áherslustofnun Íslands í mannúðarmálum. Malaví hefur verið tvíhliða samstarfsland Íslands í 33 ár. Í desember síðastliðnum sótti utanríkisráðherra landið heim og sá meðal annars afrakstur samstarfsverkefna Íslands og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í landinu. Í tvíhliða samstarfslöndum reynir Ísland eftir bestu getu að veita neyðaraðstoð þegar hamfarir ganga yfir.
Alls hafa verið staðfest 324 dauðsföll í Malaví af völdum óveðursins og 160 þúsund manns hafa misst heimili sín.