Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál til umræðu á Alþingi
Árleg skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál var tekin til umræðu á Alþingi í dag. Skýrslan kemur að þessu sinni út í skugga alvarlegustu stríðsátaka í Evrópu frá seinna stríði og afmarkast við almanaksárið 2022. Stríðið í Úkraínu var því fyrirferðamikið í ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á Alþingi enda hefur allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu litað nánast allt samstarf Íslands á alþjóðavettvangi.
„Yfirgangur Rússa hefur enn einu sinni staðfest að tilvera þjóða byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, landamærum og landhelgi. Þetta á ekki síst við um fámenna og herlausa þjóð sem byggir á traustu öryggis- og varnarsamstarfi við bandamenn. Því styður Ísland hið alþjóðlega regluverk þjóða heims sem umfram allt á að hindra að aflsmunur ráði í samskiptum þjóða,“ sagði Þórdís Kolbrún á Alþingi.
Utanríkisráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi náins og tíðs samráðs Atlantshafsbandalagsríkja og hvernig það hefði reynst lykillinn að góðri samstöðu og eindregnum stuðningi við úkraínsku þjóðina. Í máli sínu lýsti útanríkisráðherra hvernig Ísland hefði frá fyrsta degi stríðsins verið samstíga bandalags- og samstarfsríkjum í stuðningi við Úkraínu.
„Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu felst einnig í mannúðaraðstoð, efnahagslegum stuðningi og framlögum til varnarmála. Samtals nam fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu hátt í 2,2 milljörðum króna á árinu 2022," sagði Þórdís Kolbrún og nefndi til viðbótar nokkur verkefni sem íslensk stjórnvöld hafa staðið að til stuðnings Úkraínu, þar á meðal flutning á hergögnum frá bandalagsríkjum til Úkraínu, skipulagningu þjálfunar fyrir Úkraínu í sprengjuleit og -eyðingu til viðbótar við framtakið „Sendum hlýju“ sem unnið var í samstarfi við íslensk fyrirtæki og almenning.
Utanríkisráðherra ræddi sömuleiðis um formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hófst í nóvember síðastliðnum og leiðtogafundinn sem aðildaríkin ákváðu að halda á Íslandi í maí vegna umskiptanna í pólitísku landslagi álfunnar í kjölfar innrásarstríðs Rússlands. Hún fjallaði jafnframt um aukin framlög til verkefna á sviði öryggis- og varnarmála sem hækkað hafa á undanförnum árum. Þrátt fyrir að fátt annað en innrásin komist að á vettvangi utanríkismála um þessar mundir þá horfði ráðherra yfir breiðara svið og vék meðal annars að störfum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland leiðir árlega ályktun um ástand mannréttinda í Íran.
„Í lok nóvember höfðu Ísland og Þýskaland frumkvæði að sérstökum fundi mannréttindaráðsins sem samþykkti ályktun um stofnun óháðrar rannsóknarnefndar svo hægt verði að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran. Því miður hefur víða fjarað undan mannréttindum kvenna en þó hvergi eins mikið og í Afganistan þar sem konur hafa verið sviptar nær öllum réttindum,“ sagði Þórdís Kolbrún á Alþingi.
Þá vék ráðherra í máli sínu einnig að framlögum Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.
„Ísland hefur á undanförnum árum aukið framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þau námu á síðasta ári 0,35 prósent af vergum þjóðartekjum. Þrátt fyrir skarpa hækkun þjóðarframleiðslu eftir að heimsfaraldrinum lauk og hallarekstur ríkissjóðs var ákveðið að viðhalda því hlutfalli árið 2023 og framlag til Úkraínu kæmi til viðbótar þeim fjármunum," sagði Þórdís Kolbrún.
Ráðherra fjallaði einnig um alþjóðlega viðskiptaumhverfið og þær breytingar sem það hefur tekið á síðustu misserum, svo sem vegna þvingunaraðgerða gagnvart Rússlandi og aðgerðir í tengslum við COVID-19 faraldurinn sem hvoru tveggja hefur haft mikil áhrif á efnahag ríkja um allan heim.
Þá vék Þórdís Kolbrún að alþjóðlega fjárfestingu sem tengist nýsköpun og sprotastarfsemi. „Sú gleðilega og óvenjulega staða er nú uppi að Ísland er líklega eitt af þeim ríkjum þar sem frumkvöðlar í nýsköpunarfyrirtækjum eiga einna bestan aðgang að vísifjármagni. Samkeppnishæf nýsköpun á sér ætíð stað þvert yfir hefðbundin landamæri og því þarf utanríkisstefna Íslands í vaxandi mæli að taka mið af þörfum nýsköpunar og alþjóðlegrar frumkvöðlastarfsemi,“ sagði Þórdís Kolbrún sem undirstrikaði einnig mikilvægi EES-samningsins sem skrifað var undir fyrir réttum þrjátíu árum og minnti á að það væri ekki síst á umbrotatímum sem samningurinn hefur sannað gildi sitt.
Að lokum vék ráðherra að þeim tímum óvissu og umbrota í alþjóðamálum sem virðast gengnir í garð.
„Á slíkum tímum skiptir miklu að vandlega sé hugað að stöðu Íslands í heiminum. Frelsi Íslands og fullveldi raungerist einkum í þeirri staðreynd að við eigum stað meðal annarra þjóða í heiminum. Því fylgja skyldur, ekki síður en réttindi. Það á því að vera viðvarandi metnaðarmál að staðið sé vel og fagmannlega að allri framgöngu Íslands á alþjóðlegum vettvangi, og gæta vel að hagsmunum Íslands og orðspori um heim allan. Með því að Ísland sé ávallt verðugt og áreiðanlegt samstarfsríki er hagsmunum okkar best borgið,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kemur í annað sinn út sem samantekt í hefðbundnu þingskjalsformi samhliða skýrsla um utanríkismál sem miðast við almanaksárið. Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum.