Hoppa yfir valmynd
21. mars 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vel sótt vinnustofa um stöðu og framtíð Fab Lab smiðja

Fulltrúar sextán Fab Lab smiðja af landinu öllu sóttu vinnustofu um stöðu og framtíð Fab Lab á Íslandi sem boðuð var af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Auk fulltrúa Fab Lab smiðja og ráðherra sátu fulltrúar ráðuneytisins einnig vinnustofuna sem fram fór í gær.

Smiðjurnar byggja allar á Fab Lab hugmyndafræðinni en eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Þannig talar hver og ein smiðja inn í nærumhverfi sitt og samfélag. Fab Lab smiðjurnar sinna kennslu og fræðslu á öllum skólastigum auk þjónustu við nýsköpunarumhverfið og sérstökum verkefnum sem tengjast hugverkaiðnaði, skapandi greinum og tækniumhverfi. Þannig eru þær vettvangur til nýsköpunar þar sem sköpunarfærni, sköpunarkjarkur og sköpunarkraftur eru leyst úr læðingi.

Mikilvægt starf í þágu þekkingarsamfélags

Fab Lab samfélagið á Íslandi er kraftmikið, fjölbreytt og drifið áfram af hugmyndafræði nýskapandi hugsunar. Starfsemi smiðjanna færir aðgengi að tækni- og verkfærum nýsköpunar nær samfélaginu og eru mikilvægur hlekkur í áherslum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins þegar kemur að fjölgun nemenda í STEAM greinum og uppbyggingu þekkingarsamfélags um land allt.

Vinnustofan bauð upp á gott samtal við stjórnendur og starfsmenn Fab Lab smiðja sem hafa unnið að því að drífa starfið áfram, miðla og skapa. Farið var yfir hlutverk Fab Lab, helstu styrkleika þess og áskoranir, hvernig hægt sé að styðja við umhverfi Fab Lab á Íslandi, samstarfsmöguleika og hver er framtíðarsýn um hlutverk Fab Lab í samfélaginu,  en árangur Fab Lab starfsins má ekki síður þakka mannauðnum sem þar er en tækjum og tækni .

Í dag eru Fab Lab smiðjur styrktar með sameiginlegri aðkomu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis og viðeigandi sveitarfélaga.

Þátttakendur lýstu yfir mikilli ánægju með vinnustofuna og voru sammála um mikilvægi þess að auka og styrkja samstarf Fab Lab smiðjanna og að gera starf þeirra sýnilegra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta