Dómsmálaráðherrar 40 ríkja styðja alþjóðlega sakamáladómstólinn vegna málefna Úkraínu
Dómsmálaráðherrar ríflega 40 ríkja hittust á ráðstefnu í London þann 20 mars sl. og ræddu samræmdan stuðning ríkja við Alþjóðlega sakamáladómstólinn til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu eins vel og hægt er vegna innrásarinnar í Úkraínu. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, var á ráðstefnunni og flutti þar erindi sem meðal annars fjallaði um áform væntanlegs leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík varðandi ábyrgðarskyldu vegna alþjóðaglæpa Rússlands í Úkraínu.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (International Criminal Court - ICC), sem byggir á svokallaðri Rómarsamþykkt, er fyrsti varanlegi alþjóðlegi sakamáladómstóllinn sem stofnaður hefur verið til þess að taka á alvarlegum brotum sem varða alþjóðasamfélagið. Aðalstöðvar eru í Haag í Hollandi. Dómstóllinn er fjármagnaður bæði af aðildarríkjum stofnsamningsins og frjálsum framlögum frá ríkjum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum.
Ráðstefnan í London var skipulögð af Bretlandi og Hollandi og fengu dómsmálaráðherrar u.þ.b. 40 ríkja boð á ráðstefnuna. Voru ríkin valin með það að sjónarmiði að hafa fulltrúa frá öllum heimsálfum. Þá var dómsmálaráðherra Úkraínu, ríkissaksóknari Úkraínu og saksóknara Alþjóðlega sakamáladómstólsins boðið á ráðstefnuna. Á ráðstefnunni var áhersla lögð á að útvega dómstólnum aðstoð í tveimur flokkum, annars vegar öflun sönnunargagna og samhæfingu og hins vegar stuðning vegna vitna.
Árið 2022 veitti Ísland 15 milljóna króna óeyrnamerktu viðbótarframlagi til Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Framlagið var tvöföldun á árlegu framlagi Íslands til dómstólsins og til þess ætlað að styðja við almenna starfsemi dómstólsins. Framlagið var viðbragð við ákalli saksóknara dómstólsins um aukinn stuðning við dómstólinn í heild sinni.
Af hálfu Íslands hefur ítrekað verið lögð áhersla á mikilvægi Alþjóðlega sakamáladómstólsins og þeirra grundvallargilda sem hann stendur fyrir, þar með talið að koma í veg fyrir refsileysi þeirra sem gerast sekir um alþjóðaglæpi. Þá hefur Ísland ítrekað mikilvægi þess að dómstóllinn sé hlutlaus og óvilhallur í öllu sínu starfi og hefur Ísland unnið að því með öðrum vinaríkjum að styðja dómstólinn dyggilega og hið mikilvæga starf sem unnið er í hans nafni.
Ísland var í hópi 43 ríkja sem vísaði aðstæðum í Úkraínu til saksóknara Alþjóðlega sakamáladómstólsins á síðasta ári. Þá gekk Ísland í kjarnahóp um stofnsetningu sérstaks dómstóls vegna glæpa gegn friði þann 24. febrúar á þessu ári.
Til viðbótar við framangreint greiddi Ísland í lok árs 2021 í fyrsta sinn í Styrktarsjóð þolenda alþjóðaglæpa sem falla undir lögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins (e. Trust Fund for Victims). Árlegt framlag Íslands eru 10.000 evrur. Sjóðurinn styrkir einstaklinga og fjölskyldur þolenda hópmorða, glæpa gegn mannúð og stríðsglæpa. Þá hefur sjóðurinn lagt sérstaka áherslu á stuðning við þolendur kynferðisofbeldis og kynbundins ofbeldis.
Á fjórða leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík 16.-17. maí verður stuðningur við Úkraínu og ábyrgðarskylda eitt helsta umfjöllunarefnið.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra flutti eftirfarandi erindi á ráðstefnu dómsmálaráðherra í London.
Ágætu kollegar
Tilefnislaust og óréttlætanlegt innrásarstríð Rússa gegn Úkraínu er gróft brot á alþjóðalögum, þar með talið á sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Glæpum Rússa fer fjölgandi. Hópmorð, stríðsglæpir, glæpir gegn mannúð, glæpir gegn friði, kynferðisbrot í stríðsrekstri og önnur frekleg brot á mannréttindum og alþjóðlegum mannúðarlögum grafa undan grunngildum okkar samfélags.
Það er mjög mikilvægt að draga þá sem fremja slíka glæpi, til ábyrgðar. Með því sýnum við ekki bara stuðning okkar við Úkraínu heldur staðfestu okkar í því að standa vörð um lög og rétt innan alþjóðakerfisins. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn leikur lykilhlutverk í því að draga þá seku til ábyrgðar.
Árið 2022 brást Ísland við ákalli dómstólsins með auknu, óeyrnamerktu, framlagi um 100 þúsund evrur, sem var tvöföldun á framlagi okkar. Í ár munu munum við einnig auka framlag okkar í sama mæli. Árangur dómstólsins byggir á samstarfsvilja þátttökuríkjanna. Það er mjög brýnt að Rússland og þeir einstaklingar sem bera ábyrgð verði sóttir til saka fyrir þá glæpi sem þeir hafa framið og eru enn að fremja.
Kanna þarf allar leiðir til þess að réttlætið nái fram að ganga, án þess að grafa undan þeim stofnunum sem þegar eru til staðar. Þess vegna styður Ísland þær hugmyndir sem komið hafa fram um að setja upp sérstakan dómstól til saksóknar glæpa gegn friði. Stofnun Alþjóðlegrar saksóknarmiðstöðvar vegna glæpa gegn friði í Úkraínu, með það að markmiði að samræma rannsókn og varðveislu sönnunargagna vegna komandi réttarhalda, er mikilvægt skref í þessa átt.
Samstaða með Úkraínu er eitt meginþema í formennskutíð Íslands í Evrópuráðinu og það er von okkar að niðurstaðan af fjórða leiðtogafundi Evrópuráðsins, sem haldinn verður í Reykjavík, verði í þágu Úkraínu. Í drögum að dagskrá og niðurstöðuskjali leiðtogafundarins er þung áhersla lögð á Úkraínu, og þar á meðal ábyrgðarhlutann.
Það er von okkar að formleg tjónaskrá þar sem safnað verður og haldið til haga yfirliti yfir bótakröfur, verði að veruleika á leiðtogafundinum í Reykjavík.
Takk fyrir.