Forsætisráðherra flutti ávarp á málþingi um fjöltyngi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag rafrænt ávarp við opnun alþjóðlegs málþings um fjöltyngi sem fram fer í Strassborg. Málþingið sem haldið er undir verndarvæng Mariju Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, er haldið af ECSPM sem eru frjáls félagasamtök um fjöltyngi.
Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra m.a. um áskoranir og mikilvægi þess fyrir fámenna þjóð eins og Ísland að varðveita eigið tungumál. Samhliða því skilji Íslendingar mikilvægi fjölbreyttrar tungumálakunnáttu og -kennslu.
Með því að læra ný tungumál kynnumst við líka nýjum menningarheimum, bókmenntum, listum, venjum og hugsunarhætti. Þannig víkkum við ekki aðeins sjóndeildarhring okkar heldur aukum virðingu fyrir menningu hvers annars.
„Þess vegna er tungumálakennsla mikilvægur þáttur í baráttunni gegn því lýðræðislega bakslagi, aukinni hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu auk uppgangs popúlisma og einræðishyggju sem við höfum séð í heiminum undanfarinn áratug,“ sagði forsætisráðherra.