Hoppa yfir valmynd
22. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Gildi í alþjóðaviðskiptum í brennidepli á ársfundi Íslandsstofu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra - myndSigurjón Ragnar / Íslandsstofa

Þróun alþjóðamála á síðustu misserum gefur tilefni til að endurmeta þá hugmynd að samtvinnaðir viðskiptahagsmunir ríkja dugi til þess að tryggja friðsæld og framfarir. Þetta kom fram í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu sem haldinn var í Grósku í dag undir yfirskriftinni "Skipta gildi máli í alþjóðaviðskiptum?".

Þórdís Kolbrún sagði í ávarpi sínu að þróunin alþjóðavettvangi krefðist alvarlegri og dýpri umræðu en verið hefur ríkjandi á undanförnum árum og áratugum. Ekki ætti þó að þurfa sérstakt valdboð til þess að hvetja fyrirtæki til þess að velja frekar að starfa á mörkuðum þar sem grundvallargildi hins frjálsa heims eru við lýði, svo sem lýðræði, réttarríki og mannréttindi. Öll hafa þau beina þýðingu við viðskiptaumhverfið og gera frjálst markaðshagkerfi og heilbrigða samkeppni mögulega. 

"Þetta eru gildin sem tryggja eignarréttinn, réttláta meðferð fyrir dómstólum og frelsi til þess að skapa nýja hluti og skora á hólm ríkjandi viðhorf og leggja út í samkeppni jafnvel gegn þeim sem eru stórir og valdamiklir," sagði Þórdís Kolbrún. 

Í niðurlagi ávarpsins þakkaði utanríkisráðherra Íslandsstofu fyrir að vekja athygli á þýðingarmiklu málefni fyrir íslensk fyrirtæki. „Það skiptir máli fyrir orðspor Íslands til framtíðar að meðvitund sé um það í íslensku atvinnulífi hvort og hvernig gildi hafa áhrif á alþjóðleg viðskipti. Og eins og ég hef rakið hér þá eru gildi ekki bara háleit og abstrakt - heldur geta þau haft beina þýðingu fyrir möguleika fyrirtækja til þess að sinna viðskiptum og ná markmiðum.“

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta