Afhentu styrk til Neytendasamtakanna á 70 ára afmælinu
Neytendasamtökin fagna 70 ára afmæli í dag 23. mars. Í tilefni af þessum tímamótum fengu samtökin þriggja milljón króna fjárstyrk frá ríkisstjórninni. Fengu þau einnig styrk frá VR
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, afhentu samtökunum styrki í dag.
Markmið styrksins er að styðja við mikilvæg verkefni sem fram undan eru hjá Neytendasamtökunum. Styrkurinn verður meðal annars notaður til þess að vinna ítarlega úttekt á tryggingamarkaðinum á Íslandi.
Breki Karlsson formaður samtakanna sagði að markmiðið væri að kanna hvers vegna tryggingariðgjöld hér á landi eru mun hærri en í nágrannalöndum.
„Neytendasamtökin hafa staðið þessa vakt og passað upp á neytendur, sem eru reyndar þjóðin,“ sagði ráðherra meðal annars í heimsókn sinni til samtakanna fyrr í dag.
„Núna þegar við erum stödd á miklum verðbólgutímum, þá hefur hlutverk ykkar aldrei verið meira.“
Neytendasamtökin voru formlega stofnuð á fjölmennum fundi þann 23. mars 1953 og á fundinum voru lög samtakanna samþykkt og 25 manna stjórn skipuð. Neytendasamtökin eru íslensk frjáls félagasamtök neytenda en hlutverk þeirra er að vernda hagsmuni íslenskra neytenda með því að framkvæma verð- og þjónustukannanir og birta niðurstöður sínar í fjölmiðlum.
Síðastliðið haust voru framlög til Neytendasamtakanna einnig hækkuð í uppfærðum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðuneytisins við samtökin. Er hækkunin í samræmi við áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um styrkingu samtaka neytenda.
,,Neytendasamtökin hafa staðið vaktina í 70 ár en starf samtakanna skipta neytendur svo sannarlega máli. Það er sérstaklega mikilvægt að huga að vel að neytendamálum á tímum hárrar verðbólgu. Í slíku ástandi vex þörfin á öflugu neytendaeftirliti, en þurfa allir að vera á tánum gagnvart verðlagningu á vörum og þjónustu. Slíkt skiptir máli fyrir lífkjörin í okkar góða landi. Ég óska Neytendasamtökunum til hamingju með þennan merkisáfanga og hlakka til áframhaldandi samstarfs við þau.‘‘
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna fá sér afmælisköku