Sjávarútvegurinn er hreyfiafl í að takast á við áskoranir 21. aldarinnar
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarpaði aðalfund Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 24. mars sl.
Í ávarpi sínu kom matvælaráðaherra m.a. inn á hversu margvíslegar umræður um fiskveiðistjórnunarkerfið hafa verið. Annars vegar hafi umræður verið á þá leið að kerfið hafi hafi leitt til mikillar samþjöppunar og byggðaröskunar en hins vegar á þá leið að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sé gullinsnið, fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir um hvernig nýta eigi auðlindina á sjálfbæran hátt. Ráðherra benti einnig á að listin hafi gert tilraunir til að lýsa sögu fiskveiðistjórnunarkerfisins, nú síðast með þáttunum Verbúðinni.
„En eins og í svo mörgu er veruleikinn flóknari en sögurnar. Það er ekki hægt að skilja nútímasögu Íslands öðruvísi en að skilja sögu sjávarútvegsins síðustu 40 ár, en sá tími var tími mikilla breytinga, átaka og aðlögunar“ sagði matvælaráðherra. „Ég hef sagt það áður og segi það aftur hér; stóra verkefnið þegar kemur að stjórnun fiskveiða hér á landi er að ná fram aukinni sátt. Tilfinningin um að kerfið sé óréttlátt er yfirgnæfandi hjá stórum hluta þjóðarinnar og við verðum að horfast í augu við það. Vegna þess meðal annars setti ég af stað vinnu við verkefnið Auðlindina okkar, snemma á kjörtímabilinu.
Almenningur þarf að hafa tilfinningu fyrir réttlátri skiptingu arðsins
Ráðherra gerði einnig gott gengi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stöðu smærri fyrirtækja að umtalsefni sínu.
„Sjávarútvegur er burðarás í íslensku atvinnulífi og framlag hans til sameiginlegra sjóða samfélagsins er myndarlegt. Ráða má af lestri ársfjórðungsuppgjöra að síðustu ár hafa verið útgerðinni hagfelld og sjávarútvegurinn má vera stoltur af því að leggja sitt af mörkum til reksturs okkar samfélags […] Sameiginlegt markmið okkar allra ætti að vera að aukin sátt ríki um þetta framlag, að almenningur hafi þá tilfinningu að skiptingin milli arðgreiðslna til hluthafa og raunverulegra eigenda auðlindarinnar sé réttlát […] Umræða um sjávarútveg hverfist oft um stærstu og öflugustu fyrirtækin innan ykkar raða. Á síðasta ári veiddu 10 stærstu fyrirtækin tæpan þriðjung af botnfiskafla í landinu. En það er oft minna talað um öll hin fyrirtækin sem veiða tvo þriðju af öllum botnfiskafla í landinu. Það eru gjarnan fjölskyldufyrirtæki með á bilinu 15-30 starfsmenn, sem glíma líka við stóru áskoranir samtímans; tæknibyltingar og umhverfismál. Pláss þessara hagsmuna í umræðunni er oft af afar skornum skammti […] Eðlilega spyrja eigendur þessara útgerða sig hvort það sé þess virði að fjárfesta og veðja öllu á að ná betri stöðu þegar óvissa er um hvort leikreglurnar verði óbreyttar á næstu árum. Hvenær er samþjöppunin orðin of mikil og hvað viljum við í þeim efnum? Viljum við eingöngu stór fyrirtæki í kauphöllinni eða viljum við fjölbreyttari sjávarútveg?“.
Lokaafurðin skilar árangri
Jafnframt hvatti matvælaráðherra fyrirtæki í sjávarútvegi til að taka virkan þátt í samfélagsumræðunni. Sjávarútvegurinn væri hreyfiafl í því að takast á við áskoranir 21. aldarinnar, svo sem áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum og áskoranir sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Þannig gegni sjávarútvegsfyrirtækin mikilvægu hlutverki við að stuðla að nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.
Ráðherra lagði áherslu á að markmið verkefnisins Auðlindin okkar væri að stuðla að aukinni sátt. Það væri gert með því að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar sem væri jafnframt í sátt við umhverfi og samfélag. Vinnan væri um það bil hálfnuð og starfshópar sem vinna að verkefninu muni skila lokaniðurstöðum sínum í maí 2023.
„Á borðinu liggja nú 60 bráðabirgðatillögur sem verið er að fjalla um efnislega þessar vikurnar“ sagði matvælaráðherra „Ég veit að þær leggjast misvel í hagsmunaaðila, enda ekki við öðru að búast, en ég hef fulla trú á því að lokaafurðin muni skila árangri“.