Hoppa yfir valmynd
28. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

EFTA og Moldóva ná samkomulagi um fríverslunarsamning

EFTA-ríkin og Moldóva hafa komist að samkomulagi um fríverslunarsamning sem undirritaður verður á næsta ráðherrafundi EFTA í Liechtenstein í júní næstkomandi. Viðræðurnar tóku alls tvö ár og fóru lengst af fram í skugga innrásar Rússlands í Úkraínu. Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands í Genf, leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna.

Að sögn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra markar samkomulagið þáttaskil í samskiptum þjóðanna og opnar á viðskiptaleg tækifæri í hlutaðeigandi ríkjum.

„Þrátt fyrir stríð í Evrópu og blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum felur samkomulagið í sér ríkan vilja til aukinnar efnahagslegrar samvinnu. Með fríverslunarsamningnum styður Ísland ásamt hinum EFTA-ríkjunum, Liechtenstein, Noregi, og Sviss, viðleitni stjórnvalda í Moldóvu til vestrænnar samvinnu með beinum hætti,“ sagði utanríkisráðherra.

Samningurinn kveður á um frekari markaðsopnun fyrir viðskipti með vörur og þjónustu milli Íslands og Moldóvu og kemur á stofn vettvangi fyrir EFTA-ríkin og Moldóvu til viðræðna um frekari samvinnu á sviði efnahagsmála. Samningurinn tekur einnig til fjárfestinga, opinberra innkaupa, hugverkaverndar, samkeppnismála, sjálfbærra viðskipta og rafrænna viðskipta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta