Ferðaþjónustan sýndi seiglu og sveigjanleika
Ferðamálaráðherra ávarpaði ráðstefnu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu
„Íslenska ferðaþjónustan er búin að ná til baka 95 prósent af fyrri getu“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra í ávarpi sínu á ráðstefnunni Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar.
Ráðstefnan var haldin af menningar- og viðskiptaráðuneytinu í samstarfi við Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar. Ráðherra talaði þar um mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt hagkerfi.
Sagðist hún stolt af fyrirtækjum í ferðaþjónustu fyrir það hvernig þau gátu komist í gegnum heimsfaraldurinn með stuðningi mótvægisaðgerða stjórnvalda. Hrósaði ráðherra greininni fyrir seiglu og sveigjanleika.
„Það verða ekki alvöru lífskjör og góður ávinningur fyrir alla í landinu nema það sé afgangur á greiðslujöfnuðinum. Við séum með viðskiptaaðgang. Um leið og ferðaþjónustan fer að taka við sér þá erum við komin í þennan afgang,“ sagði ráðherra í opnunarávarpi sínu.
„Ferðaþjónustan bætir samkeppnishæfi Íslands og eykur lífsgæði.“
Upptöku af ráðstefnunni má sjá hér fyrir neðan. Á ráðstefnunni tóku einnig til máls Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Jane Stacey yfirmaður ferðamála hjá OECD, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF sem kynnti nýtt mælaborð, Ferðagögn.