Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Erpsstaðir fengu Landbúnaðarverðlaunin 2023

Þorgrímur Einar Guðbjartsson ogHelga Elínborg Guðmundsdóttir á Erpsstöðum í Dalabyggð taka við Landbúnaðarverðlaununum 2023 úr hendi matvælaráðherra.  - myndSigurjón Ragnar

Landbúnaðarverðlaun matvælaráðuneytisins voru afhent á Búnaðarþingi í dag af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Verðlaunin hlutu þau Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson á Erpsstöðum í Dalabyggð.

Í umsögn ráðuneytisins segir:

„Þau Helga og Þorgrímur Einar hafa búið á Erpsstöðum í 25 ár og alla tíð ástundað búskap sinn af forsjá og áhuga. Á þessum árum hafa þau eflt búið verulega, aukið ræktað land, fjölgað kúm og framleiðslu afurða. Auk þess hafa þau stundað fjölbreytta starfsemi á bænum. Má þar nefna að þau voru meðal fyrstu bænda sem gerðu samning við Vesturlandsskóga um skógrækt á bændabýlum. Árið 2008 var byggt nýtt fjós og hófst þá heimavinnsla afurða árið eftir. Á Erpsstöðum er nú tekið á móti þúsundum ferðamanna sem geta kynnt sér íslenskan landbúnað og bragðað á vörum sem framleiddar eru á bænum undir vörumerkinu Rjómabúið á Erpsstöðum. Hjónin hafa einnig um árabil tekið á móti nemum í starfsnám frá landbúnaðarskólum í Evrópu og tekið virkan þátt í félagsstörfum, svo sem með setu í sveitarstjórn, stjórnum búnaðarfélaga og þátttöku í öðrum samtökum í nærsamfélaginu“.

Listamaðurinn Unndór Egill Jónsson hannaði verðlaunagripinn, verk sem smíðað er úr íslensku kræklóttu birki og evrópskri hnotu. Verkið er bikar sem mætti líka sjá sem skál eða ílát sem borið er uppi af lífrænt mótuðu birkitré. Á sama tíma og birkið er nýtt sem uppistaða verksins er því gefin laus taumurinn og náttúrlegri fegurð þess leyft að njóta sín.

Matvælaráðuneytið óskar þeim Helgu Elínborgu og Þorgrími Einari til hamingju með verðlaunin.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta