Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra flutti ávarp á ársfundi Seðlabankans

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ársfund Seðlabanka Íslands sem fram fór í Hörpu í dag.

Í upphafi ávarps síns minntist forsætisráðherra Jóhannesar Nordal, fyrsta bankastjóra Seðlabankans, sem lést fyrr í mánuðinum á 99. aldursári. Jóhannes var seðlabankastjóri í um þrjá áratugi og einn af áhrifamestu mönnum í íslensku efnahagslífi á síðustu öld.

Forsætisráðherra ræddi einnig um reynsluna af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem nú hefur verið metin í tveimur skýrslum óháðra úttektarnefnda. Þær staðfesti að heilt yfir hafi sameiningin tekist vel þótt ýmis tækifæri til úrbóta séu til staðar.

Þá fjallaði forsætisráðherra um ástand efnahagsmála og verðbólguna sem sé nú meginviðfangsefni hagstjórnar hér á landi eins og víðast annars staðar.

„Það er sameiginlegt verkefni að vinna að því að ná böndum á verðbólgunni. Seðlabankinn hefur þar veigamiklu hlutverki að gegna enda eitt hans meginhlutverk að tryggja verðstöðugleika,“ sagði forsætisráðherra.

Forsætisráðherra ræddi einnig mikilvægi þess að ljúka sem fyrst því verkefni að koma á fót innlendu greiðslumiðlunarkerfi. Slíkt skapi bæði ávinning fyrir neytendur og tryggi öryggi og viðnámsþrótt kerfisins. Í því skyni hafi verið skipaður starfshópur til að vinna tillögur að lagabreytingum til að koma á innlendri óháðri smágreiðslulausn. Markmiðið sé að tryggja farsæla innleiðingu slíks kerfis eigi síðar en um næstu áramót.

Ávarp forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta