Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Talaði fyrir mikilvægi alþjóðaflugs fyrir Ísland í Brussel

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Stina Soewarta, fulltrúi Evrópusambandsins á sviði samkeppnismála og stafrænnar umbreyting

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fundaði með Stina Soewarta, fulltrúa Evrópusambandsins á sviði samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar, til að ræða fyrirhugaðar breytingar á núgildandi EES-löggjöf um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug (ETS-kerfið).

Ísland hefur náð verulegum árangri í þróun á sjálfbærum orkugjöfum og nú er um 85 prósent af allri orkunotkun á hér á landi sjálfbær. Ísland hefur jafnframt sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og að landið verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.

Ferðaþjónustan er ein af undirstöðugreinum Íslands í útflutningstekjum með um 30% hlutdeild sé horft til síðustu tíu ára. Sé litið til hlutdeildar í landsframleiðslu þá er framlag ferðaþjónustunnar til jafns við sjávarútveg. Efnahagslegt mikilvægi alþjóðaflugsins fyrir Ísland er því gríðarlegt.

Landfræðileg lega Íslands kallar á greiðar flugsamgöngur. Meðalfjarlægð til flugvalla í Evrópu frá Íslandi er mun lengri eða um 2.200 km, en styðstu flugleiðirnar eru um 1.500 km. Meðalfluglengd í Evrópu er á bilinu 850-1.000 km. Kostnaðaráhrifin af tilskipuninni fyrir Ísland eru því margfalt meiri en meðaláhrif annars staðar í Evrópu þar sem losun á kolefni eykst í hlutfalli við lengd flugleiðar.

„Ég lagði ríka áherslu á að Ísland geti ekki samþykkt fyrirhugaðar breytingar án þess að komið sé til móts við okkar sjónarmið. Viðbrögð fulltrúa Evrópusambandsins á fundinum voru góð og ég er vongóð um að tekið verði tillit til landfræðilegrar legu landsins, “ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Á fundinum sagði ráðherra jafnframt um máltækniverkefni íslenskra stjórnvalda og áskoranir í tengslum við gervigreind og samfélagsmiðla.

Tók þátt í árlegri ráðstefnu um flugsamgöngur í Evrópu

Ráðherra tók einnig þátt í pallborðsumræðum á árlegri ráðstefnu evrópskra flugfélaga um flugsamgöngur í Evrópu (A4E Aviation Summit) og áhrif þeirra á ferðaþjónustu. Ráðherra ræddi þar meðal annars um sérstöðu Íslands og mikilvægi alþjóðaflugs fyrir fámenna eyþjóð í miðju Atlantshafi. Kom hún sérstaklega inn á áhyggjur af nýju ETS regluverki ESB í flugi sem og skorti á skilningi og samræmi þar.

Frá pallborðsumræðum í Brussel í gær. 

„Flugið er forsenda ferðaþjónustunnar á Íslandi og hefur mikilvægi fyrir efnahag þjóðarinnar. Ferðaþjónustan hefur spilað lykilhlutverk í viðsnúningi efnahags Íslands síðan í hruninu árið 2008,“ sagði Lilja meðal annars á ráðstefnunni í gær.

Sérstaklega mikið áhyggjuefni er skekkt samkeppnisstaða flugfélaga sem nota íslenskan tengiflugvöll í samkeppni í að bjóða flugmiða á milli Evrópu og N-Ameríku.

Í ferðinni til Brussel heimsótti ráðherra einnig sendiráð Íslands í Brussel og fastanefnd Íslands gagnvart NATO.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta